fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Gufuð upp?

Já, það mætti halda að ég væri bara stein-týnd og tröllum gefin. En þannig liggur nú í því að hún mamma mín á eftir að skrifa svo mikið af sögum frá sumrinu og fara í gegnum svo mikið af myndum, að hún bara kemur sér ekki í að skrifa nokkurn skapaðan hlut. En burtséð frá því er allt gott að frétta af mér, ég er alveg alsæl á leikskólanum og mér líður ósköp vel að vera komin með lífið í fastar skorður. Ég fer stillt og prúð að sofa klukkan átta á kvöldin og vakna upp úr sjö og það finnst mér gott. Ég er nefnilega ekki svona kvöldmanneskja og svefnpurrka eins og pabbi og mamma. Ég er búin að eignast bestu bestu vinkonu á leikskólanum, það er hún Kristín Kolka. Við erum eins og samanlímdar samlokur alla daga. Ég er svolítið mikil pæja þessa dagana, ég vil helst fara í kjól í leikskólann og vera með spennur og teygjur og úr og sólgleraugu og hatt. Mamma segir samt að ég verði að geyma úrið og sólgleraugun og hattinn í hólfinu, en hún leyfir mér stundum að vera í kjól. Enda er hún besta mamma í heimi, eða það segi ég henni að minnsta kosti því þá gerir hún allt fyrir mig. Ég kann sko vel á hana mömmu mína!

föstudagur, ágúst 19, 2005

Hann á afmæli í dag

Elsku besti pabbi minn á afmæli í dag, húrra fyrir honum! Við systkinin sungum hátt og snjallt fyrir hann í morgun (tvisvar meira að segja), og svo gáfum við honum pakka og ég var svo góð að opna alla pakkana fyrir hann. Ég vildi nú fá að fara í kjól í leikskólann í tilefni dagsins, en mamma vildi endilega að ég færi í skólafötin mín. Ég fæ hins vegar að fara í kjól á morgun og þá kemur Silja frænka mín í veislu, húrra húrra!!!

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Búið sumarfrí

Þetta er nú búið að vera meira fjör-sumarið! Ég segi ykkur betur frá því bráðlega, en nú er ég aftur komin í leikskólann minn og er ósköp glöð með það. Það er líka fullt af myndum sem bíður eftir að komast á netið, vonandi verður mamma dugleg að fara í gegnum þær. Hér er alla vega ein, svo þið getið séð hvað við systkinin vorum fín í brúðkaupinu þeirra pabba og mömmu!