þriðjudagur, mars 27, 2007

Að lifa er að læra

Um helgina fórum við fjölskyldan í óvissubíltúr. Það var mjög spennandi, við villtumst um miklar ævintýraslóðir í þoku og rigningu, og svo fundum við allt í einu veitingahús (Hafið bláa) þar sem var kaffihlaðborð. Svo rötuðum við sem betur fer aftur heim. Á leiðinni að veitingahúsinu fannst mér vegurinn á einum stað aðeins of ævintýralegur, þegar ég horfði allt í einu bara beint niður í sjó úr glugganum mínum. Þá sagði ég, "ég vil ekki deyja, ég er svo ung!" Og svo bætti ég við, "ég er ekki búin að læra neitt!" Já, það er víst eins gott að halda sig við efnið, það er svo margt sem maður þarf að læra í þessu lífi. Svo í dag lærði ég um samhljóða og sérhljóða, og svo lærði ég líka að brjóta saman sokka. Ég var sko heima með mömmu og Guðmundi Steini, ég er lasin og pabbi í útlöndum, bara sama ástand og venjulega :-/ Ég er með andstyggilegar bakteríur í hálsinum (streptókokka) og þarf að taka ennþá andstyggilegra meðal til að drepa þær. En sem betur fer er meðalið líka mjög sterkt og ég er strax orðin svo hress að ég fæ að fara í leikskólann á morgun eftir að vera búin að taka meðal í tvo daga.

fimmtudagur, mars 15, 2007

Guð í gamla daga

Mamma var að lesa fyrir mig Ævintýrið um Augastein þar sem er talað um hvernig fólk var fátækt í gamla daga og átti lítinn mat og það var svo dimmt því það var ekkert rafmagn. Þetta fannst mér merkilegt. Ég held að Guð í gamla daga hafi verið fastur á krossinum, eða kannski var hann svona gamall að hann gat ekki skapað ljós og rafmagn og mat handa fólkinu. Jámm, mamma hafði alla vega enga betri skýringu á reiðum höndum.

Eru að koma jól eða hvað? Hvað ætli Guð sé nú að bralla?

Já er nema von að maður spyrji, allt í einu var þykkt snjólag yfir öllu í morgun. Ég var alveg steinhissa á þessu.

Mamma er komin heim frá útlöndum, með fullt af fötum handa mér. Þar á meðal ótrúlega flott Hello Kitty föt sem mig kannski vantaði strangt til tekið ekki en voru bara svo krúttleg að hún varð að kaupa þau. Henni finnst líka svo fyndið að þetta skuli vera komið aftur í tísku því þetta var líka í tísku þegar hún var lítil stelpa.

Pabbi var ótrúlega góður við mig á meðan mamma var í burtu, gaf mér Ronju disk, Kinder egg og ýmislegt fleira. Við fórum líka í fjöruna með Gabríel, það var alveg ískalt en samt mjög gaman, við fundum skeljar og gamlan vinnuhjálm og ýmislegt merkilegt.

föstudagur, mars 09, 2007