þriðjudagur, mars 29, 2005

Páskafrí

Ég dreif mig í páskafríið á fimmtudaginn þó ég væri nú ennþá lasin. Ég var líka ennþá lasin á föstudaginn en á laugardaginn var andstyggilega vonda pensillínið loksins farið að vinna á ljótu bakteríunum svo ég komst í kirkjuna og veisluna hennar Sunnu. Það var sko flott, Sunna var svo fín og Maggi líka, og afi var eins og snjókall (með pípuhatt). Ég var líka algjör pæja með snuddur í tösku og fannst ég vera aðalmanneskjan í veislunni, settist bara hjá ömmu og afa við háborðið og lét fara vel um mig. En við pabbi fórum samt snemma heim því við vorum ósköp þreytt eftir öll veikindin. Á sunnudaginn fékk ég svo að fara í meiri veislu og það var eiginlega ennþá skemmtilegra, ég hljóp um allt, hjálpaði Hilke (mömmu Magga) að sópa og skúra, borðaði jarðarber og skemmti mér hið besta. Ég var mjög svekkt að þurfa að fara heim í páskahúsið okkar og alveg brjáluð að eiga að fara að leggja mig, öskraði á mömmu að ég væri ekki þreytt og vildi fara út á róló og hitta hestana. En svo loksins sofnaði ég samt og svaf í þrjá tíma, svo ég var víst orðin dálítið þreytt. Í gærmorgun fékk ég svo að kíkja á hestana og við pabbi fórum svo út á róló og í langan göngutúr og vorum lengi lengi úti, það var sko gaman. Svo fórum við heim og ég svaf alla leiðina í bílnum, en ég gleymdi að skoða hestana aftur og gefa þeim eitthvað að borða.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli