þriðjudagur, mars 15, 2005

Aftur í pössun

Þá eru mamma og pabbi aftur farin til Skotlands, meira flakkið á þeim. Ég er nú aldeilis heppin að hafa þau Sunnu mína og Magga minn á neðri hæðinni, þau eru svo góð að ætla að passa mig á meðan. Amma, afi og Þórður ætla líka að hjálpa þeim, því það er svo voða mikið að gera hjá þeim. Þau eru nefnilega alveg að fara að halda stóra veislu og verða hjón. Ég skil reyndar ekki alveg hver á þá afmæli, það verður kaka svo augljóslega hlýtur einhver að eiga afmæli. Kannski bara Sunna og Maggi bæði... Ég er búin að vera bara nokkuð stillt og góð held ég, að vísu var ég svolítið pirruð fyrsta kvöldið og vildi bara skæla og ekkert fara að sofa eða fá pústið mitt eða neitt. En ég var líka dálítið þreytt þá, ég fór nefnilega í afmælisfjör til Silju og Hauks og Péturs með Sigurði Pétri og mömmu hans, og það var svo gaman að við vorum alveg fram á kvöld. Ég var algjör pæja, tók með mér skó, snuddu og smekk í handtöskunni minni.

Í gærkvöldi vildi ég hins vegar endilega fara að sofa. Þá kom hann Jón hundur í heimsókn, ég var búin að hlakka voða mikið til og ætlaði að gefa honum saltstangir. En svo þegar hann var kominn þá minnkaði hjartað mitt svolítið mikið og ég vildi bara fara í rúmið mitt.

Á laugardaginn, áður en mamma og pabbi fóru, var mikið fjör, þá keyrðum við langt í burtu og upp á snjóinn og Nonni frændi, Anna Margrét og krakkarnir fóru líka. Það var frábært veður og snjórinn alveg frosinn, svo við bara brunuðum alla leið upp á Skjaldbreið. Við reyndum að renna okkur þar á skíðum og bretti en það var svo hart og hált að það gekk ekkert sérlega vel. Svo við fórum aftur niður af fjallinu og fundum góðan stað þar sem við fengum okkur nesti og svo fengum við að sitja á snjóþotu og sleða sem var fest aftan í bílana og fara í marga brjálaða hringi. Það var sko alveg rosalega gaman, við Silja fengum meira að segja að fara saman bara tvær á snjóþotunni. Ég var nú ekki alveg sátt við að hætta í þessu fjöri og fara heim, en ég var samt ekki lengi að sofna þegar við vorum komin af stað og steinsvaf alla leiðina heim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli