miðvikudagur, mars 23, 2005
Já það er fjör
Það er heldur betur fjörið hjá okkur núna. Pabbi varð alveg fárveikur í gær greyið, með háan hita og beinverki. Ég var með pínu hósta, svo þeim mömmu datt í hug að ég væri kannski með streptókokka án þess að vera mjög veik og hefði smitað pabba. Hann verður nefnilega svo veikur af þeim, og þetta gerðist oft svona með Sigurð Pétur þegar hann var minni. Þannig að í morgun fórum við pabbi og mamma til læknis og læknirinn skoðaði í hálsana okkar pabba. Pabbi var með bullandi streptókokka og fékk meðal, en það var ekkert að sjá í hálsinum mínum. Ég var líka alveg eldhress og ekkert lasin. Svo komum við heim, ég sagði við mömmu að ég væri þreytt og vildi fara að sofa í rúminu mínu, og vaknaði rúmum tveimur tímum síðar með bólginn og rauðan háls og næstum 40 stiga hita. Þannig að við mamma fórum aftur til læknis og fengum meðal handa mér. Nú er bara að vona að meðalið láti hendur standa fram úr ermum og reki þessar ljótu bakteríur í burtu á stundinni svo við getum farið að drífa okkur í páskafríið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli