mánudagur, mars 21, 2005
Mamma og pabbi komin
Ég var bæði glöð og fegin þegar mamma og pabbi og Sigurður Pétur komu að sækja mig í leikskólann á föstudaginn. Þetta var samt svolítið erfitt, þegar við komum heim þá bara missti ég alla stjórn á tilfinningunum mínum og lagðist bara í gólfið og fór að hágráta. En ég jafnaði mig nú fljótt í mömmufangi með snuddu, svo fékk ég Bangsímon liti og litaði með mömmu og lék við bróður minn og svona, bara hafði það gott í rólegheitunum. Á laugardaginn var ég mjög dugleg á sundnámskeiðinu og svo komu Haukur og Silja til okkar í pössun. Ég var rosa spennt og glöð að fá þau, við Silja erum svo góðar vinkonur og leikum alltaf svo fallega. Haukur og Sigurður Pétur eru líka ósköp góðir vinir, svo þetta er allt eins og best getur verið. Við fengum að fara í heita pottinn og hoppa og sulla. Svo fengum við snakk og horfðum á Spaugstofuna. Daginn eftir fórum við út að drullumalla, við bjuggum til kökur og búðing og urðum mjög drullugar. Svo þurftu Haukur og Silja að fara, en við Sigurður Pétur og Heiðar fengum að fara í bíó að sjá Bangsímon og frílinn. Það var ótrúlega spennandi og skemmtileg mynd, frílamamman kallaði á frílinn og Gúri var fastur og frílamamman bjargaði honum og þeir máttu leika í smástund. Svo er alveg að koma páskafrí, ég er mjög spennt og læt mömmu segja mér oft á dag nákvæmlega hvenær páskafríið komi. Ég er samt dálítið hrædd við páskana, en ég veit nú ekki alveg af hverju það er. Það verður að minnsta kosti örugglega mjög gaman í páskafríinu, þá ætla ég að fara á skíði og í veisluna hjá Sunnu og Magga.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli