föstudagur, júní 03, 2005

Sveitaferð

Í gær fór ég í sveitina með leikskólanum mínum og mömmu og Sigurði Pétri. Pabbi ætlaði líka að koma með, en svo þurfti hann að fara til útlanda, aumingja hann. Ég fór í rútu með litla kjarna, mér fannst ægilega gaman að vera aðeins litlakjarnastúlka aftur, annars er ég bara alveg komin á bláa kjarna og er alveg hæstánægð þar. Ég var mjög spennt að fara í sveitina og ætlaði sko að skoða öll dýrin og klappa hestunum og allt. En svo voru þeir svo stórir og hræðilegir að ég þorði ekki að klappa þeim. Og reyndar ekki heldur folöldunum eða hundunum eða kettlingunum eða lömbunum. En mér fannst nú samt voða gaman að skoða dýrin. Svo voru líka rólur og alls kyns leiktæki, og við fengum pylsur. Þetta var mjög skemmtilegt og ævintýralegt allt saman. Stóri bróðir fékk að taka fullt af myndum af dýrunum og við leyfum ykkur að sjá þær um leið og mamma er búin að fá tölvuna sína til að tala við myndavélina, þær eru eitthvað súrar hvor við aðra núna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli