miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Það er asni í mér

Á mánudaginn fór ég til læknis sem skoðaði mig vel og vandlega. Svo sagði hann að það væri asni í mér og ég skyldi vera dugleg að anda, líka nýja fjólubláa. Þetta heyrði ég allt saman þó mamma og pabbi héldu að ég væri upptekin að skoða bækur og dót, og minnti mömmu á þetta um kvöldið.

Ég er tvisvar búin að fá saltkjöt og súpu og það er sá allra langbesti matur sem ég hef fengið. Ég hámaði í mig súpuna án þess að mega vera að því að segja orð á meðan (og það gerist nú ekki oft að ég megi ekki vera að því að tala) og þegar hún var búin rétti ég fram diskinn og hrópaði MEIRA!

Loks er svo það að frétta að Sunna, Maggi og fuglinn Nemó eru flutt til okkar. Það finnst mér nú ekki amalegt, mér finnast Sunna og Maggi svo skemmtileg og ég er voða spennt fyrir Nemó þó ég sé stundum pínu hrædd við hann. Til dæmis það fyrsta sem ég sagði þegar ég vaknaði í morgun var "má ég skoða Nemó".

Engin ummæli:

Skrifa ummæli