mánudagur, febrúar 14, 2005

Sumarfrísfjör

Við fórum aftur í sumarfrí í Víðihlíð um helgina, húrra gaman! Það var frí í leikskólanum mínum á föstudaginn og líka í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo við fórum öll saman í Víðihlíð með skíðin mín, snjóþotuna og brettið hans Sigurðar Péturs. Hann var ótrúlega flinkur á brettinu þó hann væri að prófa það í fyrsta skipti, og sagði meira að segja að það væri skemmtilegra að vera á bretti heldur en að hjóla, og þá er sko mikið sagt! Ég var líka mjög dugleg á skíðunum en ég var samt ekki eins mikið úti og bróðir minn því það var dálítið kalt. Þá var nú notalegt að setjast bara inn í bíl og hlusta á tónlist. Svo lékum við bróðir minn líka á fullu inni, hoppuðum og hlupum og fórum í Gutta-leik (annað okkar var óþekkur Gutti og hitt kallaði "Gutti komdu heim"). Þetta var alveg brjálað fjör allt saman. En svo er hitt verri sagan að í gær fór ég að finna til í eyranu mínu og það kom eitthvað blautt í það, svo ég þarf að fara til læknis í dag. Eins og ég er búin að reyna að passa mig að verða ekki kalt og klæða mig vel, kannski verð ég bara að leggjast í hýði eins og múmínálfarnir og vakna aftur þegar vorið kemur. En það er þó bót í máli að amma Gisela og afi Jón eru í heimsókn svo ég get vonandi leikið svolítið við þau í dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli