mánudagur, febrúar 28, 2005

Lína og fleira fjör

Þá eru mamma og pabbi komin heim. Ég var ósköp glöð að sjá þau og fá skemmtilegu Bangsímon-seglana sem þau gáfu mér. Ég var nú samt alveg farin að vera góð við Sunnu og Magga líka, ég þurfti bara aðeins að prófa fyrst hvað ég gæti fengið að ráða miklu. Á laugardaginn komst ég loksins aftur á sundnámskeiðið mitt, ég er búin að missa af þremur tímum í röð því ég er búin að vera lasin. Það var rosa gaman, en dálítið skrýtið að við þekktum engin börn á námskeiðinu. Kannski voru bara allir sem við munum eftir orðnir lasnir. Við mamma vorum alla vega hálfringlaðar en ég var samt mjög dugleg að synda og kafa og sækja dót. Seinnipartinn fóru svo mamma og pabbi og amma og afi í Hjallabrekku í einhverja agalega fína veislu, en amma og afi á Akureyri voru í heimsókn hjá okkur og þau pössuðu okkur systkinin. Það var sko gaman, við fengum að fara út að leika og svo borðuðum við pizzu og horfðum á Spaugstofuna. Í gær var síðan loksins loksins komið að því að ég fékk að fara og sjá Línu Langsokk. Vá hvað hún er flott! Ég var alveg dolfallinn, sat og hélt í tíkarspenana mína þegar hún söng Línu Langsokk lagið og söng með. Hún var líka svo flink að hoppa, nú hoppa ég sko út um allt eins og Lína Langsokkur! Ég var náttúrulega frekar svekkt þegar leikritið var búið og ætlaði þá bara að fá Dýrin í Hálsaskógi næst, fyrst að Lína var búin, en við þurftum því miður að fara heim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli