mánudagur, janúar 03, 2005

Loksins loksins

Loksins er ég komin í leikskólann minn, ég var mjög ánægð með að fara þangað í morgun og kvartaði ekkert þó ég væri ægilega sybbin. Ég er líka búin að vera heima meira og minna lasin í rúmar þrjár vikur, það er nú alveg nóg komið. Við vorum nú samt öll orðin nokkuð hress um helgina, á nýársdag fór ég í bíó með bróður mínum, frændsystkinum, mömmu og Jóni afa. Það var auðvitað mikið gaman, eini gallinn við bíó er bara að það skuli enda, ég vildi helst ekkert fara heim. En Haukur, Pétur og Silja komu með okkur heim úr bíóinu og Anna Margrét og Nonni komu svo líka heim til okkar í veislu, svo það var nú alveg frábært fjör.

Annars er það helst í merkisfréttum að mamma var að komast í gegnum nokkrar myndir úr sumarfríinu, nú er komin seinni hlutinn af myndum frá tjaldútilegunni á Vestfjörðum og nokkrar myndir frá því við vorum í Víðihlíð. Svo er mamma byrjuð á ferðasögunni svo hún kemur vonandi fljótlega, og sömuleiðis myndirnar frá Danmörku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli