miðvikudagur, september 14, 2005

Fréttir

Það er mikið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er ógurlega spennt fyrir litlu frænku minni henni Svanhildi (ég á eftir að verða ægilega svekkt þegar hún verður skírð eitthvað allt annað). Hún er óskaplega lítil og sæt og kann ekki neitt. Ég ætla að vera mjög dugleg að kenna henni að labba og tala og allt þetta sem maður þarf að kunna. Enda er ég orðin stór fimleikastúlka, ég byrjaði sko í fimleikum síðasta laugardag. Ég missti reyndar aðeins kjarkinn fyrst, en þá kom mamma hlaupandi og huggaði mig og svo hélt hún á mér og gerði allar æfingarnar fyrir mig þangað til mér fannst ein æfingin nógu spennandi til að yfirvinna kjarkleysið. Eftir það hoppaði ég um eins og herforingi, skreið eins og kónguló, rúllaði mér, fór í kollhnísa aftur á bak og áfram og var algjör snillingur. Svo fórum við mamma í húsdýragarðinn og gáfum lömbunum og kálfunum snuddurnar mínar. Það var nú ansi stórt skref, aðallega fyrir mömmu held ég. En ég er búin að standa mig alveg eins og hetja, ég hef verið pínu óörugg þegar ég fer að sofa á kvöldin en þetta hefur samt gengið ótrúlega vel. Ég er líka alveg að verða þriggja ára. Ég er ótrúlega spennt og spyr mömmu á hverjum morgni hvort ég eigi núna afmæli. Og ég er búin að læra að segja plííís og ó mæ gaaad og gvuðminngóður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli