Jæja, næsta verkefni í sumarfríinu var að fara til Þýskalands. Það var nú ekki lítið sem við systkinin vorum búin að bíða eftir því, og við áttum í smá vandræðum með að fara að sofa nóttina áður. Við áttum hins vegar ekkert erfitt með að vakna um miðja nótt og drífa okkur út á flugvöllinn. Þetta var allt svo ótrúlega spennandi, við sváfum ekkert í flugvélinni og heldur ekkert í bílaleigubílnum á leiðinni í húsið. Ég átti kannski smá erfitt með skapið mitt, og fékk til dæmis dálítið mikið brjálæðiskast yfir helvítis ógeðslega smábarnastólnum sem ég átti að sitja í. Svo kom í ljós að hann var hvort sem er of lítill, svo ég fékk sem betur fer sessu í staðinn. Þegar við komum síðan í húsið hittum við Silju frænku og alla frændurna og ég var aldeilis ekki á því að ég væri neitt þreytt, ónei alls ekki! Ég vildi endilega fara út að leika og var í miklu fjöri alveg fram á kvöld, þá loksins samþykkti ég að leggjast út af og ég held ég hafi verið sofnuð áður en ég var búin að loka augunum.
Nú, svo var náttúrulega bara endalaust fjör hjá okkur. Við hittum ættingja okkar í Þýskalandi á veitingastað í kastala, við krakkarnir lékum okkur í kastalanum og fórum margar ferðir upp í turninn, ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Við fórum líka í siglingu á ánni Neckar sem rann þarna um, skoðuðum húsið þar sem amma Gisela átti heima, fórum í tívolí, sundlaugagarð, dýragarð, og náttúrulega lékum okkur saman frændsystkinin.
Síðustu nóttina voru allir farnir nema við fjölskyldan og afi Jón, og þá gistum við í kastalanum sem var rétt hjá okkur. Það var mjög spennandi og ævintýralegt. Við löbbuðum niður í þorpið, sem var mjög erfitt, það voru eitthvað yfir hundrað tröppur (ég taldi þær allar en við mamma erum búnar að gleyma tölunni). Við höfðum ætlað að kíkja í búðir en þetta var pínulítið þorp og allar búðir voru lokaðar á laugardegi. Svo kom allt í einu hellidemba svo þá flýðum við inn á næsta kaffihús og fengum okkur ís. Svo þrömmuðum við upp allar tröppurnar aftur, mamma og pabbi með Guðmund Stein í kerrunni á milli sín. Það var ekki auðvelt.
Við fórum svo í flugvélina heim seint um kvöld. Þá vorum við orðin frekar lúin og alveg til í að leggja okkur, Guðmundur Steinn sofnaði áður en vélin var komin á loft en ég skoðaði litabókina sem ég fékk og borðaði matinn hans Guðmundar Steins, bað svo um teppi og steinsofnaði á stundinni. Það var síðan ósköp notalegt að koma heim og leggjast í rúmið sitt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli