sunnudagur, apríl 13, 2003

Oh, hún Ásta frænka mín ætti bara að sjá mig núna. Ég er svo agalega smart í ítölsku fötunum sem hún gaf mér, ekkert smá mikil skvísa. Og svo er ég meira að segja með fínu húfuna sem hún prjónaði á mig líka, hún er svo rosalega flott og svo er hún tvöföld þannig að hún er mjög hlý og góð fyrir börn sem er illt í eyrunum sínum. Mér líður reyndar miklu betur í eyrunum, þetta var bara allt annað líf eftir að ég fór að fá þetta meðal. En mér er samt ennþá pínu illt, til dæmis í gærkvöldi þegar ég var að reyna að sofna þá var ég alltaf að toga í eyrun mín. Æ ég vona að þetta bara batni sem fyrst, mig er líka farið að langa svo í sund, ég er ekki ennþá búin að fara í sund með stóra bróður.

Mamma og pabbi eru annars búin að vera voða dugleg. Aðallega reyndar pabbi, mamma fór bara í bíó í gær með Sigurð Pétur og Heiðar og steinsvaf þar. En svo sparslaði hún nú líka eitthvað smá. Pabbi er að smíða arinvegginn, þetta er að verða rosa flott hjá honum, hann er með svo sniðugar hugmyndir nefnilega. Þetta verður örugglega mjög fínt allt saman hjá þeim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli