mánudagur, júní 16, 2003

Nú fór illa fyrir mér! Ég var að sofa í vagninum hjá dagmömmunni og búin að ýta mér alveg út í horn eins og ég geri alltaf. Þá bara allt í einu sporðreistist vagninn aftur fyrir sig og ég fór náttúrulega öll í klessu og krambúleraðist í framan. Aldeilis öskraði ég! En ég var nú fljót að jafna mig og mér líður alveg vel núna, borðaði vel og lék mér og skellihló þegar Katrín var að segja mömmu frá þessu. Grey Katrín, ég held að hún hafi nú kannski bara fengið meira sjokk en ég.

Þetta var annars ágætis helgi, nema ég er með kvef og var með pínu hita líka og búin að sofa hálfilla. En ég fór samt til afa og ömmu í Hjallabrekku í gær og fékk að leika mér hjá þeim á meðan mamma fór í búðina að kaupa handa mér föt fyrir Mallorca. Það var alveg frábært að vera hjá afa og ömmu, ég fékk að skoða garðinn þeirra, smakka steinana og labba í kringum tjörnina og alls konar. Og svo fékk ég að rusla allt út í sjónvarpsherberginu og dreifa dagblöðum um allt, það var sko fjör!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli