fimmtudagur, september 18, 2003

Ég á afmæli í dag...

...ég á afmæli í dag, ég er afmælispæja, ég er eins árs í dag. Húrraaaaaa! Ég var svo spennt að ég vaknaði klukkan korter yfir sex, annars er ég farin að sofa alltaf til sjö og alveg hætt að súpa hjá mömmu. Ég reyndar sakna þess stundum svolítið, sérstaklega þegar ég vakna svona snemma eins og í morgun. Ég held að mamma sakni þess pínu líka en ég er nú orðin svo stór, ég get ekki haldið þessu áfram endalaust. Ég fékk ný föt í morgun til að fara í til dagmömmunnar, og ég fékk að fara með snúða með mér til að gefa hinum börnunum. Svo segir mamma að ég fái pakka á eftir, ég veit nú ekkert hvað það er, en það kemur í ljós. Hins vegar veit ég hvað mjög margt er núna, ég er rosalega dugleg að taka framförum í málþroska og skilningi þessa dagana. Ég kann að benda á auga og tungu, kann að segja ma-e-mamma (hvar er pabbi) og ef mamma segir hvar er snudda þá svara ég datt, enda er snuddan yfirleitt dottin. Svo finnst mér rosalega fyndið ef ég hristi hausinn eða rek út úr mér tunguna og einhver hermir eftir mér, það er uppáhaldsleikurinn minn núna. Af heilsufarinu er það að frétta að ég er laus við eyrnabólguna en ennþá með vökva í öðru eyranu og þarf að láta líta á það eftir einn og hálfan mánuð. Og ég er ennþá með hósta svo nú er mamma að reyna að troða í mig hóstasaft. Alveg er ég að klikkast á þessu, alltaf verið að troða einhverju ógeði í mann með þessari andstyggðar sprautu. En mamma lofar að þetta verði bara í nokkra daga og þá tekst mér vonandi að losna bara við þetta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli