sunnudagur, mars 09, 2003

Jibbí, nammi namm. Mamma gaf mér rófu í gær og mér fannst hún rosalega góð, reyndi eins og ég gat að hjálpa mömmu að koma skeiðinni upp í mig. Ég er samt ennþá að læra að koma matnum úr munninum og ofan í maga, en það þýðir ekkert annað en bara að æfa sig. Svo gaf amma mér líka smá banana í gær og mér fannst það líka bara nokkuð gott. Þannig að ég vona að ég sé bara búin að koma því til skila að ég vil fá mat! Mamma. Er það skilið? Ég fór í sund í gærmorgun, það var rosalega gaman fyrst, en svo var ég orðin svo þreytt að mamma og pabbi fóru á endanum bara með mig upp úr. Þá var ég samt búin að kafa fullt og vera rosalega dugleg, busla og skemmta mér helling. En mér finnst miklu betra að fara klukkan fimm á daginn heldur en á morgnana. Mikið var líka gott að sofna í vagninum eftir sundið. Í gærkvöldi kúkaði ég í klósettið, híhí, það var nú skrýtið. Ég var sko búin að kúka í bleyjuna og mamma var að skipta á mér en ég var ekki alveg búin. Sem betur fer tókst mér að koma mömmu í skilning um það og þá setti hún mig bara á klósettið til að klára. Mér fannst nú dálítið skrýtið að sitja þarna. Eitt finnst mér rosalega skemmtilegt að gera. Ég næ taki á mömmu, annað hvort læsi ég nöglunum í andlitið á henni eða gríp í hárin aftan í hnakkanum, og toga hana svo til mín og bít eins fast og ég get í hökuna hennar. Þetta finnst mér alveg frábært. Svo stundum ef mömmu tekst að losa sig þá setur hún upp einhvern kjánalegan svip og þykist vera reið. Hahaha það finnst mér fyndið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli