þriðjudagur, mars 11, 2003

Merkilegt fyrirbæri þessi munnur. Og skrýtin og skemmtileg hljóð sem er hægt að gera með honum. Ég var að fatta eitt rosalega sniðugt, það er að vera með eitthvað uppi í munninum, t.d. putta eða tá, og gera svo hljóð með vörunum og tungunni. Afskaplega skemmtilegt finnst mér. Svo brá mér reyndar pínu í gær, þá var ég með skeið með graut uppi í munninum og ákvað að prófa að gera svona hljóð, en þá allt í einu fékk ég bara graut í andlitið! Mömmu fannst þetta voða fyndið, en ég var nú frekar hissa. Í gær fór ég í sturtu með mömmu og ég gat eiginlega alveg setið sjálf á gólfinu, studdi mig meira að segja með hendinni og allt. Mamma passaði mig samt mjög vel því það er svo hart að detta á flísarnar. En það er ekki langt þangað til ég get farið að sitja alveg sjálf. Og ég held ég sé alveg að ná þessu með að skríða, ég er alla vega alltaf að reyna, alveg á fullu. Eins gott að mamma og pabbi drífi sig að setja parkettið á stofuna. Og ég er orðin rosalega klár að velta mér af bakinu á magann, til dæmis velti ég mér þrisvar sinnum í rúminu mínu í gærkvöldi. Ég skil ekkert í því að mamma skyldi ekki hrósa mér meira, eins og ég var dugleg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli