laugardagur, maí 31, 2003

Hehemm, ég er víst að verða letibloggari, ekkert búin að skrifa í 10 daga! En ég hef nú samt smá afsökun, við mamma höfum nefnilega dálítið mikið að gera núna, við þurfum að hugsa um allt því pabbi liggur bara í rúminu, hann er víst með brotið bak. Hann er nú samt voða duglegur að leika við mig. Hann fer alltaf í rosalega skemmtilegan leik við mig, sem er að skella saman ennunum. Það finnst mér fyndið og skelli enninu eins fast og ég get við hans enni. Eða kinnina hans eða nefið, eftir því hvert ég hitti.

Tennurnar mínar tvær eru komnar í gegn, svo nú er ég komin með fjórar tennur uppi og tvær niðri. Önnur helstu afrek mín þessa dagana eru þau að ég kann að vinka og sýna hvað ég er stór, láta dót detta og segja dah, svo beygi ég mig og tek það upp aftur, og ég er orðin mjög flink að standa upp og labba með, ég get labbað um alla stofu með dótakassann minn á undan mér. Og svo kann ég líka alveg að skríða á fjórum fótum, ég er alveg hætt að ormast með magann í gólfinu. Það finnst öllum ég vera orðin voða stór, enda er ótrúlega stutt síðan ég gat bara ekki neitt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli