fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Hvar á maður að byrja...

Jæja gott fólk, nú er ég búin að vera svo lengi í burtu og margt búið að gerast að ég veit bara ekkert hvar ég að byrja. Dagmamman mín fór í frí, svo ég skellti mér bara í sveitina með mömmu, pabba og Sigurði Pétri. Það var auðvitað mjög gaman, stóri bróðir var alltaf að leika við mig og knúsa mig og mér finnst það algjört æði. Við fórum líka í slatta af bíltúrum, mér finnst það ekki eins mikið æði en ágætt samt að leggja sig í bílnum. Einu sinni festum við okkur í sandi úti í á, mamma og pabbi þurftu að fara út í ána og hleypa úr dekkjunum svo þau kæmust upp úr aftur. Svo tókst pabba að bakka upp úr ánni en þá var allt loftið farið úr einu dekkinu svo þau þurftu að hringja á veiðivörðinn í Veiðivötnum og biðja hann að dæla lofti í dekkið. En svo vorum við líka ekkert alltaf í bílnum, við fórum aðeins í labbitúra og þá fékk ég að vera í burðarpoka á bakinu á mömmu, og ég fékk líka að vera í grasinu að leika mér. Og við fórum auðvitað oft í sund, mér finnst það alveg frábært. Sérstaklega í Aratungu þar sem er göngugrind í búningsklefanum, ég vildi nú helst bara vera þar! En svo er ég líka búin að vera rosalega dugleg að æfa mig að labba sjálf, ég hef alveg náð nokkrum skrefum í einu. En ég þarf helst að klappa á meðan, þá gengur miklu betur. Svo er ég líka alltaf að læra ný hljóð, nú kann ég að herma eftir hestum og kúm, mömmu finnst það rosalega fyndið og hlær og hlær. Og ég er komin með tvær nýjar tennur, nú er ég með fjórar tennur uppi og fjórar niðri og get heldur betur bitið almennilega.

Amma og afi í Hjallabrekku heimsóttu okkur í sveitina, það var nú aldeilis gaman því ég hef eiginlega ekkert séð þau í allt sumar. Svo eru þau núna í útlöndum, alltaf eitthvað flakk á þeim. Og afi sem á meira að segja afmæli í dag, ég verð bara að knúsa hann þegar hann kemur aftur heim.

Eftir fríið fór ég svo að vera allan daginn hjá dagmömmunni og ég er bara hæstánægð með það. Það er líka búið að vera svo gott veður, svo ég hef verið bara úti með krökkunum að leika mér. Mamma og pabbi gáfu mér skó til að vera í úti, fyrst ég er nú orðin svona dugleg að labba. Þeir eru rosalega þægilegir og fínir. Pabbi er farinn að vinna aðeins, honum er eitthvað að batna í bakinu sínu. Svo nú förum við öll saman út á morgnana, það er mikið fjör. Stundum fáum við stóri bróðir að sofa aðeins lengur á meðan pabbi og mamma borða morgunmatinn sinn, í morgun leyfði mamma mér að sofa lengur í bólinu hennar en svo vaknaði ég bara allt í einu alveg sjálf. Og þar sem ég var alein, þá ákvað ég bara að drífa mig sjálf fram úr og skreið svo fram á gang að leika mér. Mamma var eitthvað voða hissa og hvít í framan þegar hún sá mig, iss ég skil nú ekki í því, ég er svo flink að klifra og fara sjálf niður. Meira að segja þó rúmið sé hærra en ég.

Jæja, nú man ég ekki meira merkilegt í bili en nú er ég alveg búin með sumarfríið og lofa að vera dugleg að skrifa.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli