sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin

Þá eru jólin loksins komin! Þessu lýsti ég nokkrum sinnum yfir á meðan við vorum að opna pakkana. Aðfangadagur var nú dálítið strembinn og mikið að gerast, afmælið hennar mömmu, möndlugrautur, jólabað, biðin eftir hátíðinni, spenningurinn yfir pökkunum og svo spennan yfir öllum fallegu og skemmtilegu gjöfunum. En þetta gekk nú stóráfallalaust og ég var afskaplega ánægð og glöð í lok dagsins, eins og við öll.

Á jóladag fórum við í jólaveislu til Önnu-Lindar frænku og hittum þar öll stóru frændsystkinin mín. Það var auðvitað brjálað fjör og við skemmtum okkur öll mjög vel. Guðmundur Steinn var ekki síst ánægður, hann fékk frostpinna í plasti að naga og fannst það æði, hann klæjar greinilega mikið í gómana litla greyið.

Á annan í jólum elduðu svo mamma og pabbi kalkún, það er hvorki meira né minna en níundi jólakalkúnninn sem þau elda saman! Þeim finnst það alveg ótrúlegt. Og þá kom Júlía sætaskott frænka mín og auðvitað afi og amma, Þórður og Sunna og Maggi. Mér fannst rosa gaman, sérstaklega þegar við horfðum á vídeómyndir af mér. Ég nennti sko ekkert að horfa á myndir af Guðmundi Steini, ég vildi bara hafa þær af mér.

Í gær fórum við svo á stóra fína jólaballið, ég var ekkert hrædd við jólasveinana og leiddi meira að segja einn þeirra! Og á morgun fer ég á Ronju ræningjadóttur og svo kemur gamlársdagur. Meira hvað það er margt skemmtilegt að gerast núna!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli