Hér er allt í fullu fjöri svona rétt fyrir jólin. Um síðustu helgi fórum við á jólaball í vinnunni hjá pabba og mömmu. Við systkinin vorum rosa fín í jólafötunum okkar og skemmtum okkur mjög vel. Kertasníkir kom og ætlaði að borða seríuna af jólatrénu. Hann var aldeilis fyndinn. Ég var ekkert hrædd við hann, mamma þurfti bara að halda á mér svo ég sæi betur.
Við fórum líka á jólahlaðborð í Húsdýragarðinum. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur komu með og það var rosa gaman hjá okkur. Ég var dálítið smeyk við Grýlu, en vinur minn sem ég kynntist þarna passaði mig fyrir henni. Svo var líka jólasveinn og ég var eiginlega ekkert hrædd við hann. Eftir á löbbuðum við um og skoðuðum dýrin, og vorum svo heppin að hitta á bæði þegar hreindýrunum var gefið og selunum.
Stekkjarstaur kom svo í nótt og gaf mér skopparabolta í skóinn. Mér fannst ótrúlega spennandi að hann væri að koma, og átti pínu erfitt með að fara að sofa. Ég var líka búin að heyra í honum þegar ég var að fara að hleypa Gabríel út, þá heyrði ég svona eins og einhver væri að labba með staf. Þá varð ég nú frekar skelkuð. En ég þorði alveg að kíkja ein í skóinn, mamma og pabbi þurftu ekkert að koma með mér eins og þegar ég var lítil.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli