Það er búið að vera mikið um hátíðahöld og fjör hjá mér síðustu daga. Á föstudaginn var sumarhátíð í leikskólanum mínum, mamma og pabbi komu á hátíðina sem þurfti því miður að vera inni því það var ausandi rigning. En við fengum pylsur og það kom leynigestur sem var Ronja ræningjadóttir. Ég var ekkert hrædd við hana og talaði meira að segja við hana. Ég var nefnilega dálítið hrædd við leynigestina síðast, þá komu Mikki refur og Lilli klifurmús og voru með heilmikil læti. Og þá var ég nú líka bara tveggja ára.
Á laugardaginn var svo auðvitað 17. júní og mamma fór með mig á hátíðahöldin (pabbi greyið var að smíða eins og alltaf). Ég sá töfratrúð og svo hoppaði ég endalaust í hoppuköstulum. Mamma skildi ekkert hvaðan ég fékk svona mikla orku, hún var dauðþreytt þegar við komum heim þó hún hefði ekki einu sinni hoppað neitt og fór bara að leggja sig, en ég fór með pabba í langan labbitúr og bjargaði unga sem var dottinn ofan í gjótu.
Á sunnudaginn fóru síðan mamma og pabbi á fullt að smíða og mér fannst það ekkert gaman svo ég fékk að fara í heimsókn til Kristínar Kolku vinkonu minnar. Við lékum okkur saman lengi lengi, máluðum puttamálverk og gerðum ýmislegt skemmtilegt. Ég ætlaði nú ekkert að fara heim með mömmu þegar hún kom að sækja mig, ætlaði bara að borða kvöldmat hjá vinkonu minni og helst gista líka, en ég sættist á að fara heim á endanum.
En svo var nú gamanið búið því ég vaknaði um nóttina alveg fárveik, með mjög háan hita og hræðilega illt í hálsinum. Ég er víst með einhverja víruspest sem tekur marga daga og pabbi var að fara til útlanda, svo við mamma verðum bara að hanga tvær heima alla vikuna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli