mánudagur, mars 27, 2006

Skíðaferð

Um helgina fórum við í heimsókn til ömmu Giselu og afa Jóns á Akureyri og í smá skíðaferð í leiðinni. Það er nefnilega fullt af snjó á Akureyri. Pabbi þurfti að fara á fund í vinnunni svo hann var kominn á undan okkur og við Sigurður Pétur og Gabríel komum svo keyrandi með mömmu. Hún hélt að það yrði nú ekki mikið mál, en það reyndist aðeins erfiðara en hún hélt að keyra þetta með bílveikan hund í roki og ískulda. En við Sigurður Pétur vorum ósköp góð og dugleg á leiðinni, þó við værum orðin pínulítið þreytt undir lokin. Það var líka rosa gott að koma til Akureyrar og allt svo fínt og notalegt hjá afa og ömmu.

Á laugardaginn skelltum við okkur svo á skíðin, bróðir minn fór með brettakennara lengst upp í fjall og kom dauðuppgefinn niður einum og hálfum tíma síðar. Hann stóð sig bara mjög vel, þetta var sko í fyrsta skipti sem hann fór í svona alvöru brekkur á brettinu. Ég fór í barnabrekkuna og stóð mig líka mjög vel, ég var fljót að læra að fara sjálf í "lestina" (lyfta sem er eins og færiband) og svo bara skellti ég mér niður alveg sjálf, nennti ekkert að vera að bíða eftir mömmu og pabba. Það endaði náttúrulega með því að ég datt og lenti í einni hrúgu, enda get ég bara beygt í eina átt og kann ekkert að stoppa. En áður tókst mér samt að fara eina ferð niður alveg sjálf og stoppa á jafnsléttunni neðst án þess að detta. Verst hvað er sjaldan hægt að fara á skíði, annars væri ég örugglega orðin ótrúlega flink. Amma og afi komu svo upp í fjall með snúða og við Gabríel settumst inn í bíl hjá þeim og hlýjuðum okkur og ég borðaði nokkra snúða. Gabríel greyinu var nefnilega svo ískalt, hann var alveg orðinn skjálfandi og var mjög feginn að komast í teppi í fanginu á ömmu.

Pabbi kom svo með okkur í bílnum til baka og það fannst okkur voða gott. Hann sat með Gabríel í fanginu og þá leið grey hvolpinum miklu betur, hann gubbaði bara einu sinni á kuldagallann minn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli