Þá er ég búin að læra að lesa. Það hlaut nú að fara að koma að því, því það er dálítið síðan ég fór að geta fundið út hvaða stafir eru í orðum, sem ætti nú eiginlega að vera erfiðara. Ég get líka skrifað nafnið mitt, en S-ið verður samt dálítið skrýtið hjá mér, það er ótrúlega erfiður stafur að skrifa.
Annað í fréttum er það að baðherbergið okkar gengur mjög vel, klósettið er komið á sinn stað og loft og veggir langleiðina komið, svo bráðum verður bara hægt að fara að flísaleggja og gera fínt. Mikið hlakka ég nú til að geta farið í bað. En þangað til er ég bara í heita pottinum, það er svo gaman þegar veðrið er svona gott. Gabríel finnst líka svo gaman að vera úti þegar við Sigurður Pétur erum úti. Við erum öll þrjú búin að vera úti í næstum allan dag, að grafa í moldinni og sulla í sandkassanum og leika með bíla og auðvitað í heita pottinum, en Gabríel fær ekki að fara með í pottinn. Honum er samt alveg sama um það, þá fer hann bara að grafa djúpar holur í moldinni.
Bumban hennar mömmu stækkar og stækkar og ég er búin að finna litla barnið sparka. Í gær sagði ég við mömmu að hún væri með tvá maga, matarmaga og litlubarnamaga. Þá sagði mamma mér að litlubarnamaginn héti leg. Ég skildi það nú strax, það er auðvitað þar sem litla barnið liggur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli