föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar

Í gær var sumardagurinn fyrsti. Mamma og pabbi voru bara að smíða baðherbergið, svo ég fékk að heimsækja Júlíu frænku mína og Sunna góða frænka labbaði með okkur í húsdýragarðinn. Það var sko gaman, svo fórum við aftur heim til þeirra að leika og ég vildi bara ekkert fara heim með mömmu þegar hún kom aftur að sækja mig.

Um páskana fórum við í sumarbústað á Skógum með afa og ömmu, Þórði, Sunnu, Magga og Júlíu. Það var alveg frábært, mér finnst svo gaman að vera með svona mörgu fólki. Við fórum í labbitúra og heita pottinn, skoðuðum flugvélina á sandinum og safn þar sem var lamb með tvö höfuð (það fannst mér fyndið). Við Sigurður Pétur fengum að finna öll páskaeggin sem afi og amma földu í skóginum og það var mjög ævintýralegt og skemmtilegt. Og einn daginn kom snjór svo við gátum rennt okkur á rassaþotunni sem var fyrir tilviljun í bílnum. Það var líka mjög skemmtilegt, alveg þangað til ég ákvað að renna mér niður tröppur. Sigurður Pétur reyndi að segja mér að það væri ekki góð hugmynd, en ég trúði honum ekki og varð að prófa sjálf. En nú veit ég að það er ekki sniðugt að renna sér niður tröppur á rassaþotu.

1 ummæli:

  1. Nafnlaus4:08 e.h.

    Þetta fannst mér líka allt ótrúlega skemmtilegt!
    Mér finnst svo hrikalega gaman þegar eru aðrir krakkar og Rósa er alveg í uppáhaldi.

    SvaraEyða