mánudagur, janúar 20, 2003

Ég er ekkert búin að velta mér aftur síðan um daginn, fyrst ég er búin að sýna hinum börnunum að ég kann það þá nenni ég því ekkert aftur. En ég fór hins vegar í sund á laugardaginn og það var sko frábært. Fyrst þegar ég kom ofan í leist mér ekki alveg á, en svo lagaðist það nú mjög fljótt og ég fékk bara hláturskast, mér fannst svo gaman. Ég svamlaði á fullu og skvetti stundum framan í mig óvart, mamma og pabbi létu mig fljóta á bakinu og maganum og það var rosalega gaman. Næst á ég svo að kafa, nú eiga mamma og pabbi að telja einn tveir þrír og skvetta svo framan í mig þegar ég er í baði. Mér finnst það nú ekkert spes, en jæja, maður lætur sig hafa það. Svo fór ég í afmæli hjá Elíasi í gær, það var ósköp fínt, fullt af strákum sem dáðust að mér því ég var eina stelpan. Og ég fór líka í matarboð á laugardagskvöldið, þetta er nú búin að vera meiri helgin. Nokkrar frænkur mínar og frændur komu í boðið til að hitta hann Jeff sem er í heimsókn frá Noregi hjá afa og ömmu í Hjallabrekku. Það var náttúrulega voða gaman og allir dáðust mikið að mér. Ég fæ alltaf núna smá sveskjumauk og svo graut á kvöldin. Mér finnst samt sveskjumaukið frekar ógeðslegt, mamma ætlar kannski bara frekar að prófa að setja maltextrakt í grautinn. En grauturinn finnst mér fínn, þó ég kunni ekki alveg ennþá að kyngja því sem fer upp í mig svo það lendir dálítið mikið út úr munninum aftur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli