sunnudagur, janúar 11, 2004

Meira mas

Við mamma bættum nokkrum orðum við listann hérna fyrir neðan, við gleymdum nokkrum dýrum og líka bolta, sem er frekar kjánalegt að gleyma því ég er búin að kunna það mjög lengi. Ég er alltaf að æfa mig í að tala núna, bendi á alla hlutina í kringum mig og segi hvað þeir heita eða segi anna ef ég veit það ekki. Svo bendi ég líka á fólkið í kringum mig og segi hvað það heitir og ég er meira að segja að byrja að reyna segja hvað ég heiti, sem er enna eða eitthvað svoleiðis.

Ég er náttúrulega búin að gera margt skemmtilegt um jólin, á Þorláksmessu og aðfangadag vorum við hjá ömmu og afa í Hjallabrekku, mér fannst nú ekki leiðinlegt að vera eins og drottning í rosa fína jólakjólnum mínum og var líka afskaplega stillt og prúð, enda ekki annað hægt þegar maður er svona fínn. Á jóladag var ég í jólaboði hjá Silju frænku og á annan í jólum kom Sigurður Pétur og við opnuðum fleiri pakka. Ég fékk margt fínt í jólagjöf, rosa fína kápu og húfu og vettlinga við, ég er sko alveg eins og rússnesk keisaraynja í því, og alls kyns föt og leikföng sem ég er búin að hafa afskaplega gaman af. Svo kom óveður og ég fór á jólaball og strax eftir jólaballið keyrðum við til Akureyrar í óveðrinu. Mér fannst það nú ekkert rosalega skemmtilegt en pabbi og mamma sungu fyrir mig þangað til ég sofnaði loksins einhvers staðar uppi á Holtavörðuheiði og svaf alla leiðina til Akureyrar. Það var mikið fjör á Akureyri hjá ömmu og afa, fullt af krökkum, góðum mat, kleinum og alls kyns fíneríi. Svo þegar jólin voru búin þá keyrðum við aftur heim og allt fór að ganga sinn vanagang, ég var voða glöð að fara aftur til Katrínar dagmömmunnar minnar og hitta aftur vini mína þar. Mér finnst líka afskaplega skemmtilegt að spjalla við mömmu um hvað ég hafi gert hjá dagmömmunni og við hverja ég hafi verið að leika, þá spyr hún hvort ég hafi leikið við þennan og hinn og hvort við höfum leikið með þetta og hitt, og ég segi jamm og ef hún hættir þá segi ég meija. Ég veit nefnilega alveg hvað mér þykir skemmtilegt og kann líka alveg að láta vita af því. Til dæmis er ég orðin hundleið á Dvel ég í draumahöll sem mamma var alltaf að syngja þegar ég fór að sofa, nú vil ég bara láta syngja mu-mu-mu. Helst myndi ég vilja að mamma væri hjá mér að syngja mu-mu-mu alveg þangað til ég sofna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli