miðvikudagur, apríl 18, 2007

Sumarið byrjað

Þá er fyrsti sumardagurinn kominn, ég var aldeilis ánægð með hann. Ég ætlaði að fara í pilsi og á peysunni niður í bæ en samþykkti á endanum að klæða mig aðeins betur, þó að sumarið væri komið. Við fórum öll fjölskyldan niður á Reykjavíkurhöfn og fórum þar í siglingu um sundin. Það var ótrúlega gaman og spennandi að sitja fremst á bátnum og hossast í öldunum. Svo fórum við í mat til ömmu og afa í Hjallabrekku og fengum sumargjafir og allt.

Svo voru nú páskarnir um daginn, það var aldeilis frábært fjör. Við fórum í Víðihlíð með ömmu og afa, Sunna og Maggi og Júlía komu líka í tvær nætur og Þórður í eina nótt. Það var heilmikið smíðað og málað og gerðir fínir veggir. Ég æfði mig endalaust að standa á höndum og að skrifa, lesa og reikna í skólabókunum sem ég fékk (Geitungurinn). Ég hljóp líka um alla móa með Gabríel, tíndi fjallagrös, og lék náttúrulega við Sigurð Pétur þegar hann kom. Við leituðum að páskaeggjum í skóginum (tré á stangli í brekkunni neðan við húsið) og ég fékk málsháttinn "Sælla er að gefa en þiggja" sem átti sérlega vel við þar sem ég var afskaplega upptekin af að setja allt nammið úr egginu í skál til að geta gefið öllum með mér. Þetta var afskaplega ljúft og skemmtilegt páskafrí.

1 ummæli:

  1. Nafnlaus4:41 e.h.

    Hvað meinarðu með "tré á stangli"? Þetta er virðulegur og ört vaxandi skógur og öll þessi risastóru páskaegg hurfu eins og dögg fyrir sólu inn á milli þeirra. Sjó som ríspekt!

    SvaraEyða