þriðjudagur, apríl 03, 2007

Hrakningar

Í gær slapp Gabríel út og og hljóp út í hraun með Sigurð Pétur, Heiðar og mig á eftir sér. Ég var í fínu bleiku strigaskónum mínum og þegar ég kom í hraunið þá steig ég óvart í drullu og skórnir festust í drullunni. Svo ég fór úr skónum og hljóp strákana uppi. Þá hélt Sigurður að ég hefði hlaupið út á sokkunum og sagði mér að fara heim í skó. Ég snéri við og ætlaði að fara heim, en þá var ég orðin pínu villt og rataði ekki alveg heim. Þá fór ég smá að gráta. En svo fann pabbi mig sem betur fer, ráfandi um hraunið á sokkunum. Og Sigurður fann skóna mína, svo þetta bjargaðist allt.

Og á morgun kemur páskafríið. Ég er búin að vera að telja niður síðan fyrir helgi, ég hlakka ótrúlega mikið til. Mamma er búin að kaupa páskaegg handa mér og ég er svo spennt að fá að borða það. Reyndar borða ég ekkert af namminu sem er inni í því, en súkkulaðið er ágætt og máttur auglýsinganna mikill ;-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli