fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Jæja

Næstum tvær vikur liðnar síðan við mamma skrifuðum síðast, skömm að þessu bara! Það er víst eins gott að bæta úr þessu, þó ekki væri nema til að halda utan um sjúkrasöguna mína. Magapestin var fljót að jafna sig og ég slapp víst bara vel frá henni, en svo á mánudeginum hringdi dagmamman í mömmu og þá var ég orðin alveg ómöguleg og komin með hita. Svo mamma náði í mig og fór með mig til læknis og þá var ég komin með eyrnabólgu í hitt eyrað. Svo ég fékk nýtt sýklalyf, Zitramax, sem ég var auðvitað rosalega dugleg að taka. Og ég er líka alltaf rosalega dugleg í pústinu, ég er meira að segja búin að læra að segja "anda" (adda). Ég er eiginlega laus við hóstann, en ég er ekki viss um að eyrun mín séu komin í lag, alla vega ætlar mamma að láta lækninn kíkja á mig á eftir og hún ætlar líka að stelast til að láta hann kíkja á augað sitt í leiðinni, hún er eitthvað voða pirruð í því.

En ég þurfti sem sagt að vera heima alla síðustu viku, mamma og pabbi skiptust á að vera hjá mér. Ég var orðin frekar leið á að hanga heima og fá ekki einu sinni að fara út, svo ég var voða glöð að við skyldum fara í Víðihlíð um helgina. Sigurður Pétur var líka rosalega glaður, hann hoppaði og hrópaði "Víðihlíð, Víðihlíð", þegar hann vissi að við værum að fara þangað. Enda var mjög gaman þar, við fórum í bíltúr að skoða Hjálparfoss og út að leika og skoða tré, ég var mjög hrifin af þeim og ég kann líka alveg að segja tré (dé). En verra var að það hefur komist mús í dótakörfuna mína sem ég geymi í Víðihlíð, og hún var búin að naga fullt af dóti og sumu þurfti mamma bara að henda.

Og nú er ég semsagt komin aftur til dagmömmunnar og það er búið að vera mikið fjör, ég var svo glöð að hitta hina krakkana að ég fagnaði þeim öllum með nafni og klappi þegar þau komu inn úr lúrnum sínum. ég er svo mikið að læra ný orð núna, til dæmis kann ég að segja nafnið mitt (Dossa) og nafnið hennar mömmu (Dedli), ég kann að segja kitla (dídla), opna (dotna), upp (appi), búin að sitja (bunninni affa) og margt margt fleira.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli