mánudagur, júní 25, 2007

Skór


Ég er loksins búin að fá aðaltískuskóna í dag! Við vorum í útilegu um helgina (meira um það seinna í annarri færslu) og þar spurði mamma hvort mig langaði í svona skó. Ójá heldur betur langaði mig í svona skó! Á leiðinni heim úr útilegunni (þegar ég var búin að sofna í bílnum og vakna aftur frekar úrill) fór ég að ræða við mömmu hvenær nákvæmlega við myndum fara að kaupa skóna. Helst vildi ég fara um leið og við kæmum heim, en mamma leiðinlega sagði að það væri ekki hægt af því þá yrði búið að loka búðinni. Ég orgaði smástund yfir því. Svo þagnaði ég, hugsaði mig um og stakk síðan upp á að við yrðum þá bara heima daginn eftir, þá gætum við farið í búðina um leið og yrði opnað. Og mamma, alltaf sami leiðindapúkinn, var nú ekki á því, hún sagðist endilega þurfa að fara í vinnuna. Ég skildi nú ekki alveg af hverju það væri svona nauðsynlegt, en mamma sagði að þegar maður væri fullorðinn yrði maður að fara í vinnuna sína, og annars myndi bara maðurinn í vinnunni skamma sig fyrir að fara úr vinnunni til að kaupa skó, það væri ekki hægt. Þá orgaði ég svolítið meira. Svo hugsaði ég mig um góða stund, og sagði síðan: "Mamma, ég veit. Segðu bara við manninn að ég sé veik!". Er ég ekki snjöll og útsmogin?

En mamma var nú ekki til í það, meiri fýlupúkinn sem hún er! Þá fór ég að reyna að semja um hvenær hún myndi sækja mig, ég vildi helst láta sækja mig klukkan ellefu og fara svo aftur í leikskólann þegar við værum búnar að kaupa skóna. En mamma vildi það ekki, hún gæti ekki farið úr vinnunni og það mætti heldur ekki trufla leikskólann. Svo á meðan við vorum í einn og hálfan tíma í halarófunni að komast inn í bæinn, var ég að orga og reyna að semja um hvenær ég yrði sótt í leikskólann. Það var allt í boði nema klukkan þrjú og klukkan fjögur, af því að það er sækjutími. Á endanum varð enginn samningur, nema daginn eftir var Guðmundur Steinn orðinn veikur, svo mamma þurfti hvort sem er að vera heima. Sigurður Pétur er náttúrulega í sumarfríi svo hann var líka heima, og þá fékk ég líka að vera heima og við fórum að kaupa skó á meðan Guðmundur Steinn svaf lúrinn sinn (pabbi var heima að vinna).

3 ummæli:

  1. Nafnlaus11:01 f.h.

    Ó mig langar einmitt líka svo mikið í svona skó.
    Mamma bara finnur aldrei nógu litla handa litlu stubbafótunum mínum :(

    SvaraEyða
  2. Þetta minnir mig á sögu af ungum pilti sem grét svo stjórnlaust af rjómaís-frekju að hann fékk hita og þegar læknirinn kom mælti læknirinn með því að hann fengi ís.

    Ljómandi góð lexía það?!

    Kveðja
    Skeiða Húla Heitiég

    SvaraEyða
  3. Hahhahaha... Já, stundum hlustar íbúinn á efri hæðinni :-)

    SvaraEyða