fimmtudagur, júní 28, 2007

Útilegan

Fyrsta tjaldútilegan okkar í langan tíma var núna um síðustu helgi. Við fórum nefnilega ekkert í fyrra, mamma letihaugur var með svo feita bumbu að hún nennti ekki í tjald. En nú drifum við okkur á útileguættarmót hjá afa Jóni og systkinum hans. Það var einfaldlega í stuttu máli sagt alveg frábærlega skemmtilegt. Ég eignaðist fullt af vinum og vinkonum og lék mér í alls konar leikjum með þeim út í eitt, langt fram á kvöld.

Á laugardaginn fórum við í bíltúr um Snæfellsnesið og fórum í lautarferð í góða veðrinu með Silju frænku og fjölskyldu. Á sunnudaginn fórum við aftur í bíltúr um nesið og amma og afi fóru líka með. Það var nú ekki alveg eins gott veður, en við fórum samt í smá lautarferð þangað til fór að rigna á okkur.

Gabríel var með okkur og var ótrúlega duglegur, hann lá á gólfinu í bílnum og var ekkert bílveikur. Svo hljóp hann um tjaldstæðið og lék við hina hundana og krakkana, yfir sig glaður og hamingjusamur. Enda var hann svo þreyttur eftir ferðina að hann svaf eiginlega samfellt í tvo sólarhringa. Ég held að hann væri alveg til í að búa í tjaldi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli