þriðjudagur, september 18, 2007

Fimm ára!

Hvorki meira né minna en fimm ára er ég orðin, húrra fyrir mér! Ég byrjaði daginn á því að láta syngja fyrir mig afmælissönginn og svo föndraði ég mér afmæliskórónu. Ég fékk líka að leita að einum litlum pakka, og var afskaplega ánægð með tröllasögudiskinn sem mig var búið að langa mikið í. Svo fór ég með kórónuna mína á höfðinu í sellótíma og sellókennarinn spilaði afmælissönginn fyrir mig. Mamma brunaði síðan með mig í skólann og þar var beðið eftir mér til að fara að baka afmæliskökuna.

Eftir skóla fékk ég að leita að fleiri pökkum og svo komu amma og afi með ennþá fleiri pakka og meira að segja líka pakka frá Sunnu og fjölskyldu og Þórði. Svo ég fékk fullt af pökkum til að opna, og ég var alveg sérlega ánægð með gjafirnar, takk fyrir mig allir saman!

Næstu tvo sunnudaga ætla ég svo að halda veislur, það verður fjör. Ég er búin að vera að skipuleggja í um það bil ellefu mánuði, ég ætla nefnilega að hafa fiðrildaveislu fyrir vinkonur mínar og mamma bara vonar að veislan sú eigi eftir að standa undir væntingum.

Já svo er það nú annað í stórfréttum að ég er búin að eignast tvær litlar frænkur, eina fékk ég í afmælisgjöf sem er ömmustelpa hennar Ástu frænku og svo er hún litla krúttmús frænka mín sem fæddist í Svíþjóð síðasta miðvikudag. Svo nú er Júlía orðin stóra systir, eins og ég. Mér finnst það dálítið skrítið því hún er eiginlega bara litla barn. Sunna á eiginlega tvö litlu börn núna.

1 ummæli:

  1. Nafnlaus11:46 f.h.

    Til hamingju með afmælið elsku litla frænka.
    Knús og kram!

    SvaraEyða