miðvikudagur, mars 12, 2008

Mikið að gera

Já það er sko nóg að gera hjá manni þó maður sé bara fimm ára. Ég er í skólanum flesta daga til fimm. Þegar ég kem heim vil ég helst fara út að leika við vinkonu, sérstaklega þegar veðrið er gott og alveg að koma sumar eins og mér finnst stundum vera. Tvisvar í viku eru fimleikaæfingar (á milli sex og sjö, mikið hlökkum við öll til þegar bærinn og íþróttafélagið verða búin að semja um að hafa æfingarnar á þeim tíma sem tómstundastarfið í skólunum er) og svo les ég núna eina lestrarbók á hverjum degi og spila daglega æfingamatseðilinn minn á sellóið. Mér finnst svo spennandi að fara eftir honum og lesa hann sjálf. Á honum er núna: Risakóngur Ragnar, eitt tilbrigði við samloku, Gulur rauður 2x, Parísarhjólið 3x, Söngur vindsins 2x, Halti grái hérinn, og svo er ég að læra fyrstu línuna í Signir sól.

Það er margt og mikið búið að gerast hjá mér síðan ég skrifaði síðast, enda var það fyrir mjög löngu síðan. Ég man nú ekki eftir því öllu, né hverju ég var búin að segja ykkur frá. En ég var alla vega ekki búin að segja ykkur frá því að ég fór um síðustu helgi í nafngiftarveislu hjá lítilli dömu sem fékk það fallega nafn Guðlaug Nóa. Við mamma fórum saman í veisluna, en Guðmundur Steinn varð að vera heima með pabba því hann var búinn að vera svo lasinn. Ég skildi það nú aldeilis fljótt, "Guðmundur Steinn má ekki koma í veisluna", sagði ég. "Hann gæti smitað alla og þá myndi hann eyðileggja veisluna. Þá yrði hann skammaður, er það ekki mamma!". Þá skellti mamma nú upp úr þegar hún sá fyrir sér Guðmund Stein fá orð í eyra, og alla veislugestina liggjandi í bráðsmitandi instant veikindum. Nei þá var nú betra að geyma hann bara heima.

Mest spennandi framundan er auðvitað páskafríið, ég er löngu byrjuð að telja niður dagana og hlakka mikið til að fara í Víðihlíð. Ég vona að það verði snjór svo við getum leikið okkur úti í snjónum, eða að það verði ekki snjór svo við getum rúllað okkur niður brekkuna. Svo eftir það er það ferðin til Frakklands sem við ætlum að fara með ömmu og afa í júní. Við ætlum að fara að sigla á bát, ég er mjög spennt að sjá alla krókódílana og hákarlana og sjávardýrin. Mamma og pabbi eru með einhverjar efasemdir um að það sé svo mikið líf í skipaskurðunum, en ég hlusta sko ekkert á það.

1 ummæli:

  1. Takk fyrir komuna í veisluna, það var æðislegt að sjá ykkur - verst hvað ég hafði lítinn tíma til að spjalla :-/ Þið fáið bara privat spjall við tækifæri eða þá að við kíkjum í 210 Garðabæ ... erum reyndar búin að vera á leiðinni annnnsi lengi - en sjáum til :-)

    SvaraEyða