þriðjudagur, mars 18, 2008

Vangaveltur

Bíltúrinn í og úr sellótímum er nokkuð langur og margt hægt að grufla og skrafa á leiðinni. Í dag var mér sérstaklega hugleikið yfirvofandi páskafrí og ég var mikið að velta fyrir mér nákvæmlega hvenær ég yrði sótt í skólann á morgun, hvenær við myndum leggja af stað í Víðihlíð og hvenær ég ætti að pakka niður dótinu mínu (eða pakka inn). Helst vildi ég nú fá frí í dag til að pakka, en það var ekki í boði. Jæja, nema hvað að svo byrjar lag í útvarpinu og ég verð svona líka spennt og glöð með það og segi, "þetta er svona um frí". Mamma var pínu hissa því hún mundi ekki eftir neinu um frí í textanum. En svo kom viðlagið - já það er lotterí og ég tek fátt í frí!

Svo á leiðinni í skólann (eftir að við vorum búnar að komast að því að tónskólinn er farinn í páskafrí) var ég komin í aðrar hugleiðingar og sagði allt í einu upp úr þurru við mömmu, "Ég veit hvernig maður getur búið til kind. Maður tekur bara svona ull og svo tekur maður einhvern haus og eyru og setur á, og svo fullt af fótum. Og þá er komin kind!" Ekki mikið mál sko. Mamma spurði hvort þær fæddust ekki sem lítil lömb, jújú ég vissi það alveg, en það er sko líka hægt að búa til kind svona, maður þarf bara að finna einhvern haus og eyru og fætur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli