fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Þá er kominn fimmtudagur. Ég fór í sund á þriðjudaginn og það var sko alveg frábært. Ég kafaði oft og mörgum sinnum, synti í hringi kringum pabba og mömmu, stóð í lófanum á pabba og ég veit ekki hvað og hvað, og það var svo gaman. Hin börnin voru samt svolítið að skæla, aðallega strákarnir sýndist mér. En ég var miklu hressari en þegar er verið að draga mann á morgnana þegar maður er vanur að kúra í vagninum sínum! Svo ég er nú að reyna að sannfæra pabba og mömmu um að vera bara frekar á þriðjudögum í sundinu. Pabbi er eitthvað stressaður því hann þarf að fara á fund alltaf á þriðjudögum, en það er nú alveg nógur tími til þess eftir sundið.

Í nótt svaf ég í fyrsta skipti í barnarúminu mínu. Það er ægilega fínt, mamma setti svona púða meðfram rimlunum svo ég flækti mig ekki í þeim og svo setti hún óróann minn líka á rúmið. Ég svaf bara vel í því, sofnaði reyndar seint því ég vaknaði við að pabbi og mamma voru að fara að sofa og horfðu á þátt í sjónvarpinu. Ég er vön sko að fara í rúmið upp úr 10, og gerði það líka í gær og var eiginlega sofnuð þegar mamma og pabbi fóru að sofa klukkan 11. En þá glaðvaknaði ég og var dálitla stund að sofna aftur. Mér leið samt alveg vel í rúminu mínu, skoðaði bara tærnar mínar og svona. Svo bara steinsvaf ég þangað til klukkan fimm í morgun. Mamma var komin með pela með vatni niður um kvöldið og ætlaði bara að gefa mér vatn og láta mig sofa í rúminu alla nóttina, en svo bara nennti hún því ekki heldur tók mig upp í rúm til sín og leyfði mér að fá mjólk. Ég var sko ánægð með það! Klukkan var líka orðin svo margt og ég var búin að vera mjög dugleg að sofa sjálf í mínu rúmi. Stundum bara vakna ég klukkan eitt eða eitthvað svoleiðis, þá kannski er nú alveg nóg fyrir mig að súpa smá vatn og sofa svo áfram í rúminu mínu.

Jæja, þá erum við mamma að fara í leiðangur í strætó og heimsækja hana Söru Mist, bumburnar ætla að hittast þar í dag og mamma hennar á afmæli, það verður örugglega gaman.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli