mánudagur, febrúar 17, 2003

Ég fór í sveitina um helgina, við fórum öll saman í Víðihlíð ég, pabbi og mamma, og stóri bróðir. Það var aldeilis fínt, við fórum í jeppaferð og keyrðum í ís og krapa. Stóri bróðir renndi sér líka á sleða, en ég var bara inni í bíl. Það var ágætt veður, svo átti nú að koma óveður en það varð eiginlega ekkert úr því. Þegar við komum til baka fórum við til afa og ömmu í Hjallabrekku og allir fengu pönnukökur nema ég. Svo fórum við heim, ég var svolítið óróleg þegar ég átti að fara að sofa og mamma var svo þreytt að hún leyfði mér bara að sofna upp í hjá sér. Svo vaknaði ég klukkan fimm til að fá sopa og þá var ég í mínu rúmi. En eftir það fékk ég að kúra hjá mömmu. Svo er ég núna búin að sofa helling í vagninum mínum, ég var nú ósköp fegin að komast í hann aftur, ég var svolítið öfugsnúin um helgina að fá ekki vagnlúrana mína. Annars er ég alltaf núna að naga tærnar mínar ef ég fæ að vera berfætt, mér finnst það sko langbest. Síðan er ég líka alveg að fatta hvað á að gera við þennan pela, mér finnst nefnilega voða gott að súpa kalt vatn úr honum. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt sko.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli