þriðjudagur, mars 30, 2004

Enn og aftur lasin

Ég er orðin ósköp lasin og fékk næstum 40 stiga hita. Það var reyndar eiginlega bara gaman, ég varð alveg rugluð og bara hljóp um og bullaði. Svo gaf mamma mér stíl og þá varð ég bara voða þreytt. Við erum búnar að fara tvisvar til læknis og ég er ekki komin með nýja eyrnabólgu, bara ennþá eitthvað pjæ í eyrunum síðan síðast. En ég er komin með hor og hósta svo það er víst mikil hætta á að ég fái eyrnabólgu einu sinni enn. Ég reyni bara að vera dugleg að fá nefdropa og drekka vatn og vona að ég sleppi.

Annars var rosalega gaman hjá mér um helgina, ég fór í sund með pabba og mömmu og Sigurði Pétri og það var sko endalaust fjör. Ég bara kafaði og synti og náði í bolta og lék mér allan tímann. Helst vildi ég bara láta sleppa mér svo ég gæti synt sjálf. Ég er viss um að ég get það alveg, þó ég hafi reyndar strax farið á kaf þegar mamma sleppti mér. Á sunnudaginn fór ég svo í afmælisveislu til þeirra Hauks og Péturs og Silju. Það var sko gaman, fullt af krökkum sem voru að leika við mig og fullt af Stubbadóti og ég fékk bæði köku og snakk. Frábært bara!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli