fimmtudagur, maí 17, 2007

Mesta grey í bænum

Ég á svoooo bágt. Í gærkvöldi fór ég að finna til í eyranu mínu og það bara versnaði og versnaði svo ég gat ekki sofnað. Á endanum samþykkti ég að fá smá verkjalyf og þá sofnaði ég loksins og svaf til eitt, en þá vaknaði ég aftur við eyrnaverkinn. Ég fékkst aftur til að taka smá meðal og náði að sofa til fjögur, en þá var ég aftur farin að finna svo mikið til og þá vildi ég alls ekki fá meira meðal. Svo ég grét og dottaði til skiptis til sex, þá bara fór ég fram, klæddi mig og fékk mér morgunmat og fór að horfa á mynd. Ég dottaði svo upprétt í stólnum yfir myndinni til átta og síðan barnatímanum. Þá var farið að leka úr eyranu mínu og það greinilega létti mikið á þrýstingnum því fyrir níu var ég lögst í rúmið mitt og steinsofnuð. Ég ætla svo að drífa mig til læknis á eftir þegar opnar á barnalæknavaktinni.

En í gær var ég ekki grey, þá fengum við Guðmundur Steinn að fara í pössun til ömmu og afa eftir leikskólann og Júlía var líka þar í pössun. Svo þið getið ímyndað ykkur hvort það hafi ekki verið fjör! Ég fékk meira að segja að fara aðeins út á línuskauta og afi hjálpaði mér að hanga á löppunum.

Um helgina var ég heldur ekki grey, á sunnudaginn var afmælisveisla hjá Hilku og Alla afa fyrir hann Magga. Þar fengum við afskaplega góðan mat að borða, og svo fórum við Sigurður út og lékum okkur á risastóru túni og svo á leikskólavelli við hliðina á húsinu. Það var svo frábærlega skemmtilegt að ég vildi helst drífa mig aftur þangað í heimsókn daginn eftir.

Og á laugardaginn fór ég að skoða Barnaskólann sem ég er að fara í þegar sumarið er búið. Þar var rosa skemmtilegt útisvæði, og inni var leikstofa og teppi með plássum, alveg eins og í leikskólanum mínum. Þetta verður örugglega mjög skemmtilegt. Já og ekki nóg með það, ég er sko að fara í tvo skóla í haust! Ég er nefnilega að fara að læra á selló í Suzuki skólanum. Það verður nú aldeilis spennandi. Og þá getur mamma rifjaði upp fiðlutaktana ;-)

1 ummæli:

  1. Nafnlaus1:16 e.h.

    Þú ert nú meiri snillingurinn!!

    SvaraEyða