föstudagur, desember 28, 2007
Líf og fjör
Heldur betur er þetta búið að vera skemmtilegt jólafrí. Ég fékk frábærar gjafir sem ég var rosalega ánægð með, á aðfangadag fékk ég að opna þrjá pakka og mér fannst það dásamlegt. Á jóladag fékk ég svo að opna ennþá fleiri pakka og það var geggjað fjör. Ég fór líka út í snjóinn með Sigurði Pétri, það var ekki síður gaman. Svo komu öll frændsystkini mín í pabba fjölskyldu í mat um kvöldið (og pabbar þeirra og mömmur líka) og við fórum líka út að leika í snjónum eftir mat. Á annan í jólum fórum við til ömmu og afa í Hjallabrekku og þar lék ég við Júlíu frænku mína. Daginn eftir, þ.e. í gær, var svo sparijólaballið og þá hittist svo skemmtilega á að Kristín Kolka var þar, svo okkur leiddist nú heldur betur ekki. Í dag var síðan jóla-náttfatapartíið mitt langþráða, ég fékk að bjóða nokkrum vinkonum í náttfatapartí um hádegisleytið. Það var svo gaman hjá okkur, við fengum pizzu og snakk, hlustuðum á tónlist, fórum í leiki og lékum okkur í herberginu mínu. Mamma og Guðmundur Steinn voru líka í náttfötum og dönsuðu með okkur. Svo kemur smá pása núna um helgina, en svo fáum við gesti á gamlárskvöld og líka á nýárskvöld og svo koma amma og afi á Akureyri vonandi eftir áramótin. Mikið finnst okkur við heppin að hafa allt þetta skemmtilega fólk í kringum okkur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli