Það er meira hvað þessi mömmukona þykist hafa mikið að gera, má ekkert vera að því að skrifa fyrir mann. Ég verð bara að fara að gera þetta sjálf, ég er sko orðin mjög flink að skrifa. Amma og afi pössuðu okkur Guðmund Stein um daginn, þá skrifaði ég bréf til þeirra sem var svona: ama og avi ðö eru sghendileh og fn (amma og afi þau eru skemmtileg og fín). Ég er líka farin að skrifa ýmsa minnismiða, eins og hvað ég ætla að gefa vinkonum mínum í afmælisgjöf og svona. Ég skrifaði líka innkaupalista fyrir mömmu um daginn, svo hún myndi ekki gleyma að kaupa það sem mér fannst vanta. Það var: gúrka, flabröð, apelsínur, sítrónur, epli.
Ég er auðvitað orðin eldhress og laus við lungnabólguna. Það var þarsíðasta sunnudag sem ég var orðin frísk, þá fékk ég að fara í afmæli hjá vinkonu minni og svo aftur til skemmtilegu vinkonu hennar mömmu. Hún sagði að ég gæti örugglega orðið fimleikastjarna, ég var svo flink að fara í handahlaup og alls konar. Ég er líka hætt að vera í krílahóp og komin í G1. Mér finnst það mjög merkilegt, það er líka dálítið erfiðara en að vera í krílahóp. Mamma var að útskýra fyrir mér hvernig það yrði alltaf pínu erfiðara og erfiðara þegar maður færi í nýjan hóp í fimleikunum. Já, sagði ég, eins og í Mario! Það er sko uppáhaldstölvuleikurinn minn og þegar maður klárar borð þá kemst maður lengra og lengra og það verður erfiðara og erfiðara. Svo ég átti nú ekki erfitt með að skilja þetta.
Um síðustu helgi átti svo stóri bróðirinn minn afmæli, orðinn 10 ára! Strákarnir í bekknum hans komu hingað í afmæli og horfðu á mynd. Eftir myndina fóru sumir strákarnir að leika í mínu herbergi, það fannst mér heldur en ekki flott! Þeim fannst ótrúlega flott að ég skyldi eiga Action kall. Það er sko eldgamli Action kallinn hans Sigurðar Péturs :-) Grey Sigurður Pétur varð síðan lasinn á sunnudaginn og búinn að vera veikur alla vikuna. En gott að hann var hress í veislunni sinni og vonandi verður hann orðinn frískur fyrir fjölskylduveisluna á laugardaginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli