mánudagur, febrúar 26, 2007

Framtíðarplön

Þegar ég eignast stelpu þá ætla ég að gefa henni nafnið Elísabet Margrét, og þegar ég eignast strák þá á hann að heita Andrés Ari.

Annars er það helst að frétta að ég er loksins orðin hitalaus, ég var heima alla síðustu viku með hósta og kommur en á morgun fæ ég loksins að fara aftur í leikskólann minn. Sem er eins gott því ég er orðin hundleið á húsinu okkar og mömmu minni. Ég fór til ömmu í pössun í smástund í dag og ég öskraði bara á mömmu þegar hún kom að sækja mig, ég vildi ekkert fara með henni. Seinni partinn í dag fékk ég svo smá heimsókn. Það var lítil stúlka sem býr fyrir aftan okkur og síðast þegar ég hitti hana var hún bara skríðandi um, en nú er hún orðin svo stór að hún kom trítlandi og spurði hvort hún mætti koma inn að leika. Ég hélt það nú og vildi helst ekkert að hún færi aftur, ætlaði bara að bjóða henni í mat og svona. En hún kemur örugglega aftur í heimsókn seinna og við eigum líka örugglega eftir að leika saman úti í garði þegar fer að vora.

Já og ekki má nú gleyma því að við systkinin fórum í pössun á laugardagskvöldið til Önnu-Lindar. Við vorum alveg til fyrirmyndar og okkur fannst rosa gaman að vera þar og leika við frændur mína þá Berg Mána og Teit. Mamma og pabbi komu svo um nóttina að sækja okkur, ég vaknaði víst alveg á leiðinni og lét lesa fyrir mig þegar við komum heim og eitthvað svona, en það eina sem ég mundi daginn eftir var þegar mamma hélt á mér og ég rann alltaf niður því hún var í svo sleipum kjól og ég í sleipum náttfötum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli