mánudagur, október 18, 2004

Þetta er nú skrýtið

Snjór úti! Það finnst mér skrýtið og skemmtilegt, ég sagði við mömmu: þetta er skrýtinn snjór, ég hlæja. Og svo hló ég. Ég vona bara að það komi fullt af snjó í vetur og mamma og pabbi verði dugleg að fara með mig út að leika og líka í bíltúr að keyra á snjónum.

Þetta var annars afskaplega skemmtileg helgi, enda byrjaði ég á því að segja við mömmu þegar hún sótti mig á leikskólann á föstudaginn "nú er föstudagur, nú er komin helgi". Ég fór auðvitað í sundið á laugardagsmorguninn, rosa dugleg og mikið fjör, ég fékk líka að fara aðeins í rennibrautina á eftir. Svo þegar ég var búin að sofa í kerrunni minni fór ég til Silju frænku minnar, og Hauks og Péturs frænda minna, og auðvitað Önnu Margrétar mömmu þeirra. Nonni frændi var víst í flugvélinni í Ameríku, en mér fannst það eitthvað skrýtið og spurði oft hvar hann væri. Það var mikið fjör hjá okkur, ég fékk að sofa í rúminu hennar Silju og leika með allt dótið hennar, og meira segja fékk ég að fara í fötin hennar þegar ég vaknaði, ég vildi sko líka fá að velja úr fataskápnum eins og hún. Svo þegar við vorum búin að borða og fara út á róló og leika og ýmislegt, þá kom mamma að ná í mig. Og ekki var allt búið enn, því þegar ég var búin að borða kvöldmatinn kom Ásta frænka að passa mig. Ég var sko aldeilis ánægð með það, fyrst lékum við okkur saman og svo sagði hún mér sögur og söng fyrir mig aftur og aftur þangað til ég sofnaði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli