miðvikudagur, mars 01, 2006

Öskudagur

Í dag er ég Lína Langsokkur með prinsessukórónu og máluð eins og trúður í framan. Ég fékk að fara þannig í leikskólann og var aldeilis hress með það þangað til ég kom inn og sá alla í skrítnum fötum, meira að segja kennarana líka. Þá fór ég nú bara alveg í kleinu. En ég jafnaði mig nú fljótlega. Það er líka svo langt síðan ég hef farið í leikskólann, á föstudaginn var ég lasin og líka pabbi og mamma, við lágum bara öll veik í hrúgu. Svo á sunnudaginn vorum við orðin frísk og skruppum í Víðihlíð af því að Sigurður Pétur var í vetrarfríi í skólanum. Við komum síðan heim í gærkvöldi, svo ég var ekki búin að fara í leikskólann í næstum því viku.

Það var rosa gaman í Víðihlíð eins og alltaf, við Sigurður Pétur fórum í leiðangra með nesti, svo fórum við í langan labbitúr upp á fjall með pabba og mömmu, við fórum í heita pottinn, hoppuðum í rúmunum, lituðum myndir af sjóræningjaskipum og lékum okkur alls konar. Og við fengum líka bollur með súkkulaði og saltkjötogbaunirtúkall.

Já og á laugardaginn fóru pabbi og mamma á agalega fínan fund og Sunna frænka og Júlía frænka komu að passa mig. Við fórum í mat til Alla afa og Hilku, svo fórum við heim og Sunna og Júlía gistu hjá okkur og líka Maggi. Þau voru líka lengi hjá okkur daginn eftir, það fannst okkur gaman.

2 ummæli:

  1. Nafnlaus4:06 e.h.

    Okkur fannst það líka rosa gaman :)
    Mér finnst Rósa svo hrikalega skemmtileg.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus7:22 e.h.

    Mikið hefur þetta verið skemmtilegt hjá ykkur! Gott að eiga góða að til að passa! Bestu kveðjur héðan frá Meximieux.

    SvaraEyða