miðvikudagur, desember 29, 2004

Heldur skárri

Takk fyrir allar góðar batakveðjur, heilsufarið á heimilinu er heldur að skána en ég fæ samt ekki að fara á jólaball í dag. En við verðum vonandi orðin þokkaleg hress um áramótin að minnsta kosti, þessi jól hafa annars farið fyrir frekar lítið. Það var nú samt jólaboð hérna á annan í jólum. Pabbi lá að vísu í rúminu, mamma hafði sig á lappir og að borðinu, en gestirnir sáu um að elda matinn og ganga frá. Ég smakkaði samt ekkert á jólamatnum, hélt mig bara við ristaða brauðið sem er búin að vera mín aðalfæða um jólin. En ég var nú aldeilis dugleg í gær, ég fór í sturtu og fór á koppinn áður eins og ég geri alltaf, án þess að það gerist svo sem neitt. En í þetta skipti vildi ég ekki gefast upp því ég vissi að ég þyrfti að pissa, á endanum fór ég samt í sturtuna en fór svo aftur úr henni til að fara aðeins aftur á koppinn og pissaði í hann! Vá hvað ég var montin og hissa, og mamma líka. En ég vil nú samt ekkert fara aftur á koppinn í dag, vil bara fá að hafa bleyjuna mína.

laugardagur, desember 25, 2004

Meiri veikindi

Bara til að halda sjúkrasögunni til haga, þá er ég komin með nýja lungnabólgu. Læknirinn kom með sína tösku og sinn hatt og bankaði á hurðina rattatattatatt, skrifaði á miða hvaða meðal skyldi fá og afi Jón og amma Gisela fóru að kaupa meðalið handa mér. Mamma og pabbi eru nefnilega voða lasin líka, svo það eru hálf lufsuleg fyrstu jólin í Skrúðási 8.

föstudagur, desember 24, 2004

Gleðileg jól

Ég er ennþá eitthvað lasin, var mjög veik í gær og er ennþá ekkert allt of hress. En ég nenni ekkert að tala meira um það, heldur vil ég óska ykkur öllum gleðilegra og friðsælla jóla, takk fyrir allt á liðnu ári og hlakka til að hitta ykkur á nýju ári.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Er þetta hægt

Hérna er ég að reyna að hlakka til jólanna og fara á leikskólann minn að syngja jólalög og gera eitthvað skemmtilegt, en er svo bara alltaf eitthvað lasin. Núna er ég komin með einhverja ótætis gubbupest, mér líður voðalega illa og er miklu lasnari heldur en þegar ég var með lungnabólguna. Vonandi líður þetta fljótt hjá, ég get alla vega sofið voða mikið og vel svo það er gott.

mánudagur, desember 20, 2004

Í leikskólanum

Þá fékk ég loksins að fara aftur í leikskólann, húrra! Það var svolítið erfitt að vakna því ég hef verið að sofna svo seint á kvöldin og vakna á nóttunni til að kíkja í skóinn. En ég var samt mjög dugleg, fékk pústið mitt og meðalið og smá sláturbita með og mætti svo í morgunmatinn á leikskólanum. Það var sko tekið vel á móti mér og ég bara sagði bless við mömmu, tók í hendina á Steinunni kennaranum mínum og við leiddumst inn. Ég var ekkert að þykjast skæla og svona eins og ég hef stundum gert, ég var bara glöð að vera komin og vildi drífa mig inn.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Æ ansans

Ég var með hita í kvöld svo ég fæ ekki að fara í leikskólann á jólaballið á morgun og mamma fær ekki að fara í vinnuna. Vonandi fer þetta nú að lagast, mér finnst alveg lágmark að batna eftir allt sem ég er búin að leggja á mig, taka bæði ógeðslegt sýklalyf og púst.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Það var nefnilega það

Haldið þið að ég sé barasta ekki með smá lungnabólgu. Jæja þá fæ ég alla vega meðal og vonandi fer þessi ljóti hósti bara út í hafsauga. Það er jólaball á leikskólanum á fimmtudaginn, vonandi verð ég orðinn nógu hress til að fara þá.

mánudagur, desember 13, 2004

Þetta var gaman

Loksins fékk ég fara út og mikið var ég fegin. Fyrst fékk ég að fara að hitta lækninn og leika mér að dótinu á heilsugæslustöðinni. Svo fékk ég að fara til Rósu Sólveigar frænku minnar að láta taka mynd af hóstanum mínum og hún gaf mér rauða blöðru sem ég var yfirmáta ánægð með. Og loks fékk ég að fara í bankann þar sem voru rosa góðar piparkökur, ég fékk stjörnupiparköku, jólasveinapiparköku og englapiparköku. Við fáum svo að vita á morgun hvort það sást eitthvað á myndinni af hóstanum mínum. Annars verð ég bara að reyna að vera dugleg að fá pústið mitt, ég er nú ekkert sérstaklega hrifin af því, held mér líði hálf illa af því.

föstudagur, desember 10, 2004

Hóst hóst

Ég er búin að vera ósköp lasin, með vondan hósta og astmahljóð svo ég þarf að vera dugleg að anda, fyrst með bláa og svo með appelsínugula. Ég var voða veik þegar við vorum hjá lækninum í gær, með mikinn hita og algjört grey, lækninum leist bara ekkert á og ætlar að hringja í dag til að vita hvernig mér líður. En ég er miklu hressari núna, ég er ekki með neinn hita lengur og er aðallega bara þreytt því ég svaf ekki vel í nótt og vaknaði snemma.

mánudagur, desember 06, 2004

Fjúff

Það er svo mikið að gera í fjörinu að maður má bara ekki vera að því að segja frá því! Fyrst er að telja að ég fór í afmælisveisluna hennar ömmu, við fórum á rosa fínan veitingastað og það var svo gaman að morguninn eftir vildi ég bara fara beint á veitingastaðinn aftur. Ég var mjög dugleg að hegða mér fallega, og líka mjög dugleg að borða brauðstangirnar hjá öllum. Ég var auðvitað mjög fín, í fjólubláum kjól með teygjur í hárinu. Mamma stakk upp á að ég færi í rauða skoska kjólinn minn en ég hélt nú ekki, ég var í honum í afmælinu hennar Sunnu fyrir bara nokkrum dögum síðan! Mamma sko, ég meina það!

Á laugardaginn komu svo Silja og Haukur til okkar. Við fórum út að renna okkur, það var reyndar eiginlega enginn snjór, bara krapi og klaki, en það var samt rosa gaman. Alveg þangað til ég lenti á of miklum klaka og gat ekki staðið upp aftur. Ég reyndi og reyndi og svo bara varð ég alveg öskureið og fór að háskæla svo stóri bróðir þurfti að hlaupa og ná í mömmu. En ég var nú fljót að jafna mig. Svo fórum við á Garðatorg að hlusta á tónlist og horfa á jólatréð. Ég dansaði við Silju og mömmu, það var aldeilis fjör á okkur. Svo komu jólasveinar en þeir voru með svo mikil læti að ég varð bara steinhrædd. Svo fórum við heim, fengum spaghettí í kvöldmat og horfðum svo á grínþáttinn og fengum snakk, alveg frábært sko! Ég þurfti svo auðvitað að drífa mig á fætur í gærmorgun, eins og mér finnst gott að kúra virka daga þá bara verð ég að draga mömmu og pabba á lappir um helgar. Og við horfðum á barnatíma og lékum okkur saman, allir krakkarnir, og fengum meira að segja að fara í heita pottinn. Það var alveg brjálað. Svo kom mamma Anna Margrét og þá þurftu Haukur og Silja að fara, en fjörið var samt ekki alveg búið því Sunna frænka mín kom og svo komu amma og afi og við Sigurður Pétur fengum að fara með þeim í blómabúð að skoða jólasveina og við fengum ís og allt. Ég er sko aldeilis heppin að fá að gera svona margt skemmtilegt.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Afmælisdagur

Elsku amma mín Inga Rósa á merkisafmæli í dag, til hamingju með það amma mín! Ég veit líka alveg hvað þú ert gömul, svona tveggja ára eins og tveir puttar. Eða kannski eins árs eins og einn putti...

Leikskólamyndir

Nóvembermyndir úr leikskólanum mínum er komnar hér

miðvikudagur, desember 01, 2004

Ég er svo heppin stúlka

Ég á svo góða frænku, hana Silju, sem leyfði mér að vera hjá sér og sofa í rúminu sínu og leika með dótið sitt og allt hvaðeina. Og hún mamma Anna Margrét er líka svo góð við mig. Ég fékk að fara til þeirra á laugardaginn, svo næsta laugardag ætlar Silja að koma til mín. Ég hlakka sko mikið til. Svo var amma Gisela í heimsókn hjá okkur, það var líka gaman þó ég væri reyndar dálítið þreytt á sunnudaginn af því að ég gleymdi að sofa í kerrunni minni. Svo ég þurfti aðeins að öskra og skæla, það var ekki eins gaman :-( En ég var samt ósköp glöð að hafa hana ömmu hjá okkur, og ég velti því líka aðeins fyrir mér hvar afi Jón væri, "hvar er afi Jón, ég gleymdi honum" sagði ég. Og ég vil endilega fara aftur til Akureyrar til ömmu og afa, ég man alveg eftir húsinu þeirra, það er dót þar og stigi og ég var að leika mér og lesa bók þegar ég fór til þeirra síðast, sem var í endaðan apríl.

Í gær var svo aftur rosa fjör, þá fékk ég að fara í partý í skólann hans Sigurðar Péturs. Það var sko flott, fullt af stórum krökkum sem voru að syngja og leika ýmislegt, snakk og kökur og kleinur og mikið fjör. Ég hlakka svo mikið til að fara í skóla að ég get bara næstum ekki beðið.

Svo er bara eitt að lokum, í gær raðaði ég öllum snuddunum mínum í röð á stofuborðið og taldi þær, og þær eru 12.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Myndir myndir

Fyrsti skammtur af myndum úr sumarfríinu kominn á myndasíðuna, fleiri myndir og ferðasaga munu koma síðar.

Ég líka

Ég ætla að herma eftir vinkonum mömmu og fylla hér út fyrsta svona internet-spurningalistann minn.

ever had a song written about you? Jájá, það heitir Elsku Rósa Elísabet, sungið við lagið Dvel ég í draumahöll og mamma mín samdi það
what song makes you cry? Ég man ekki eftir neinu svo leiðinlegu lagi
what song makes you happy? Lagið um apaköttinn uppi í tré að stríða krókódíl (og mörg fleiri líka)
height? Um það bil 90 sentimetrar og vaxandi
hair color? Ljóst
eye color? Blá
piercings? Nei nei
tattoos? Ertu frá þér!

what ...
are you wearing?
Skólapeysu, "gamlasíðum", bleikum buxum með glitrandi stjörnu, sokkum og ullarsokkum
song are you listening to? Til dæmis kannski lagið um Dúkkuna hennar Dóru
taste is in your mouth? Snudda
whats the weather like? Snjór, bippí!
how are you? Nývöknuð úr lúrnum mínum á leikskólanum

do you ...
get motion sickness?
Nei sem betur fer ekki
have a bad habit? Já, öskra þegar ég fæ ekki það sem ég vil
get along with your parents? Já bara ágætlega enn sem komið er
like to drive? Já mér finnst voða gaman í bíltúr
have a boyfriend? Nei, ég þekki eiginlega enga stráka
have a girlfriend? Já ég á margar vinkonur á leikskólanum mínum
have children? Bara dúkkur

your greatest regret? Að fá ekki súkkulaðirúsínur
your cd player has in it right now? Ferðafélagi barnanna
if you were a crayon what color would you be? Ég veit ekki hvaða litur, en alla vega brotinn og með rifinn miða
what makes you happy? Að láta kitla mig og leika við bróður minn
whats the next cd you're gonna get? Vonandi Dýrin í Hálsaskógi
seven things in your room? Ljós(!), róla, rúm, leikföng, og í kvöld vonandi hilla, borð og stólar
seven things to do before you die...? Stækka, fara í skóla (eins og Sigurður Pétur), æfa karate (eins og Sigurður Pétur), fara til mömmu minnar (eins og Sigurður Pétur), læra fleiri stafi, fara aftur í sumarfrí og fá súkkulaðirúsínur
top seven things you say the most...? Jú!, nei!, má ég horfa á eitthvað, jú foði (það er víst í boði), viltu lækka (þ.e. hækka), viltu gefa mér, viltu syngja það mamma mín

in the last 24 hours you have...
cried?
Jájá
bought anything? Nei, en mamma og pabbi keyptu handa mér húsgögn í herbergið mitt
gotten sick? Nei (7-9-13)
sang? Ójá
been kissed? Já það er alltaf verið að kyssa mig og knúsa

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Sund og bíó

Í gær fór ég á sundnámskeið eins og venjulega á laugardögum. Ég var alveg rosalega dugleg og nú er ég búin að læra að stinga mér, ég stakk mér til dæmis tvisvar í gegnum hring, næstum eins og ljón í sirkus. Ég er líka mjög flink að kafa og sækja dót, og svo er brjálað fjör að fara í rennibrautina. Eftir sundið var svo ennþá meira fjör, því þá fékk ég að fara í fyrsta skipti í bíó. Ég fór með mömmu minni og stóra bróður, ömmu Giselu og afa Jóni, og Silju, Hauki og Pétri. Þetta var alveg brjálað, ég klappaði með þegar það kom tónlist, en ef það var engin tónlist þá bara söng ég eitthvað skemmtilegt. Svo fékk ég popp og vatn, það fannst mér alveg frábært. Og til að kóróna daginn komu amma og afi í heimsókn og borðuðu kvöldmat hjá okkur. Ég var mikið ánægð með það og teymdi þau út um allt til að sýna þeim garðinn og pallinn og svona ýmislegt. Ég var orðin ansi lúin þegar ég fór að sofa, enda gleymdi ég alveg að sofa í kerrunni minni. Þegar við mamma vorum svo að rifja upp daginn þá bað ég um að fá að fara aftur í sund, en fyrst aftur í bíó og svo sund.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Veisla

Í morgun bauð ég pabba, mömmu og Sigurði Pétri í veislu í leikskólanum mínum. Það var gaman, ég bauð þeim upp á kaffi og djús og brauð. Mér fannst þetta afskaplega merkilegt og spennandi, að fá að bjóða þeim svona til mín. Svo á Hekla afmæli í dag þannig að hún bakaði köku handa okkur og við sungum fyrir hana afmælissönginn. Aldeilis veisludagur í leikskólanum mínum í dag.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt

Í dag horfði ég á Emil í Kattholti og Spaugstofuna. Í dag lærði ég að segja andskotinn og rassgat.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Ég kann á pabba og mömmu

Ég er búin að komast að einu sem virkar ótrúlega vel á pabba og mömmu, ég segi við þau "þú ert besti vinur minn", þá alveg bráðna þau í klessu. Í gær sagði ég til dæmis við pabba, "pabbi Markús, þú ert besti vinur minn" og svo lagðist ég í fangið hans. Hann gefur mér örugglega bíl þegar ég verð nógu stór.

þriðjudagur, október 26, 2004

Mikið um að vera

Það gekk aldeilis á ýmsu um helgina. Á föstudaginn fór ég fyrst til ömmu Ingu Rósu að leika, og svo kom Sunna frænka að ná í mig. Ég var nú orðin eitthvað slöpp hjá ömmu og farin að kvarta undan því að mér væri illt í maganum, og það endaði með því að ég gubbaði oft og mörgum sinnum hjá aumingja Sunnu frænku, meðal annars í rúmið mitt og öll náttfötin mín. Það var nú ekki sérlega skemmtilegt. En þetta stóð nú sem betur fer ekki lengi og á laugardeginum sváfum við frænkur bara langt fram eftir morgni. Svo fórum við að gefa öndunum brauð og að heimsækja fuglinn sem á að eiga heima í fuglabúrinu hennar Sunnu. Ég ákvað að hann ætti að heita Nemó, það finnst mér gott fuglanafn. Ég fékk líka að fara í freyðibað og það var nú heldur betur skemmtilegt. Svo gerði ég auðvitað margt fleira skemmtilegt sem ég segi mömmu ekkert frá. Ég var samt voða glöð að fá þau mömmu og pabba heim á sunnudagskvöldið og ég var sko ekki ánægð með að þurfa að fara á leikskólann á mánudagsmorguninn, ég vildi bara fá að vera heima í náttfötunum og horfa á sjónvarpið og leika við pabba og mömmu. Það var samt auðvitað líka gaman í leikskólanum, svona þegar ég var komin þangað.

miðvikudagur, október 20, 2004

Namm namm

Það var sko veisla hjá Sunnu, þó ég fengi reyndar hvorki vöfflu né grjónagraut. En ég fékk hrísgrjón sem ég dreifði vandlega um borðið, stólinn minn og allt gólfið. Svo fékk ég rosa gott snakk sem ég hámaði heldur betur í mig, og ég fékk meira að segja nesti í poka. Sunna frænka er sko alveg frábær, mikið hlakka ég til að vera hjá henni í marga daga.

Eitthvað gott

Mamma var að segja mér frá því að við værum að fara til Sunnu frænku í kvöldmat. Ég hafði nú alveg mínar hugmyndir um hvað væri gott að fá að borða hjá henni, stakk upp á að við fengjum "kannski vöfflu", og "kannski gónagaut".

mánudagur, október 18, 2004

Eitt enn

Mér finnst svo gaman að syngja vikudagana og mánuðina, mánuðirnir eru til dæmis svona:

Nabúar, nabúar, mass-a-lúlúágútt, setteber, ottóber, núna ottóber

Þetta er nú skrýtið

Snjór úti! Það finnst mér skrýtið og skemmtilegt, ég sagði við mömmu: þetta er skrýtinn snjór, ég hlæja. Og svo hló ég. Ég vona bara að það komi fullt af snjó í vetur og mamma og pabbi verði dugleg að fara með mig út að leika og líka í bíltúr að keyra á snjónum.

Þetta var annars afskaplega skemmtileg helgi, enda byrjaði ég á því að segja við mömmu þegar hún sótti mig á leikskólann á föstudaginn "nú er föstudagur, nú er komin helgi". Ég fór auðvitað í sundið á laugardagsmorguninn, rosa dugleg og mikið fjör, ég fékk líka að fara aðeins í rennibrautina á eftir. Svo þegar ég var búin að sofa í kerrunni minni fór ég til Silju frænku minnar, og Hauks og Péturs frænda minna, og auðvitað Önnu Margrétar mömmu þeirra. Nonni frændi var víst í flugvélinni í Ameríku, en mér fannst það eitthvað skrýtið og spurði oft hvar hann væri. Það var mikið fjör hjá okkur, ég fékk að sofa í rúminu hennar Silju og leika með allt dótið hennar, og meira segja fékk ég að fara í fötin hennar þegar ég vaknaði, ég vildi sko líka fá að velja úr fataskápnum eins og hún. Svo þegar við vorum búin að borða og fara út á róló og leika og ýmislegt, þá kom mamma að ná í mig. Og ekki var allt búið enn, því þegar ég var búin að borða kvöldmatinn kom Ásta frænka að passa mig. Ég var sko aldeilis ánægð með það, fyrst lékum við okkur saman og svo sagði hún mér sögur og söng fyrir mig aftur og aftur þangað til ég sofnaði.

mánudagur, október 11, 2004

Meira London

Ég fann nokkrar (100 eða svo) myndir í viðbót frá London, sýnishorn er hér, en þeir sem vilja myndasýningu frá British Museum verða bara að koma í heimsókn :-Þ

Gleymi ég ekki uppáhaldslaginu mínu!

Lamb í baði
Borðar súkkulaði
Hundur jaamar
Galar gísinn HÁTT!

Nokkur skemmtileg orð

Ég get orðið sagt flest orð þannig að allir skilja, en einstöku orð eru samt ennþá aðeins að flækjast uppi í mér. Eins og að ná í eitthvað, ég sný því við þannig að það heitir "ána". Til dæmis sagði ég við pabba í gær þegar ég var að biðja hann að ná í litina fyrir mig, "viltu ána þeir". Og "með mér" vendist líka einhvern veginn þannig að það heitir "emjér". Gammosíur er skrýtið orð sem ég er nýbúin að læra og finnst að heiti "gamlasíður", og sokkabuxur heita "bakkabuxur". Annars kann ég að segja margt og mikið og er afskaplega dugleg að æfa mig allan daginn. Um daginn sagði ég til dæmis leikskólakennaranum mínum frá því í óspurðum fréttum að Sigurður Pétur stóri bróðir minn væri að æfa karate. Svo tók ég nokkra létta karate-takta til að sýna svona hvernig þetta væri.

sunnudagur, október 10, 2004

Myndarskapur

Þá erum við mamma búnar að búa til arrapisu og blómið, vá hvað ég hlakka til að fá að smakka, mér finnst slátur svo gott. Ég var mjög dugleg að hjálpa við að hella mjöli út í og hræra, en ég fékk ekki að sauma neitt. Það verður kannski seinna þegar ég er orðin aðeins stærri.

fimmtudagur, október 07, 2004

Júnímyndir

Eru komnar hingað

Söngbókin mín

Svona eru nokkur lög sem ég er mikið að syngja þessa dagana:

Sól sól gín á mig, gígí burt með þig
Gott er í sólinni, sól sól gín á mig
Tarraralla lalla

Gutti aldrei geggir þessu
Gettir sig og BARA HLÆR!
... og svo bútar héðan og þaðan úr textanum

Afi amma amma mín, útu Bakka búa
Þau eru sæt og sæt og fín
Þangað vil ég hljúga

Hljúga kítu firrildin, fyrir utan gluggan
Þarna sidlir einker inn, ofurlítil duggan

Hættu að gáta hringaKNÚS
.... restin einhvern veginn upp og ofan, en ég veit að það á að vera hringaknús, og leiðrétti mömmu þegar hún syngur hringagná

Og margt fleira kann ég að syngja, til dæmis Dvel ég í Draumahöll, Sofðu unga ástin mín (öll erindin meira og minna), Litlu andarungarnir, Sigga litla systir mín, Bí bí og blaka, Fuglinn segir bíbíbí, Grænmetislagið og fleira og fleira. Mér finnst líka svo ósköp gaman að syngja og oft þegar ég sé eitthvað sem minnir mig á eitthvað lag þá fer ég að syngja það. Til dæmis ef ég sé andarunga fer ég að syngja Litlu andarungarnir, og þegar ég var að fara til læknis sem heitir Ari fór ég að syngja Hann Ari er lítill. Ég hætti því nú samt sem betur fer áður en við hittum hann, mömmu leist held ég ekkert á.

Myndir

Mamma heldur áfram að mjatla inn myndum, núna eru komnar myndir frá því hún og pabbi fóru til London í júní.

mánudagur, október 04, 2004

Merkishelgi

Það var mikið fjör og margt um að vera hjá mér þessa helgina. Á föstudaginn fékk ég loksins að fara í leikskólann, í fyrsta skipti alla vikuna. Ég var nú bara pínu feimin þegar ég mætti, en ég jafnaði mig fljótt á því. Svo komu mamma og pabbi og sóttu mig og fóru með mig til ömmu og afa í Hjallabrekku, ég tók með mér sængina mína og koddann og öll meðölin mín því ég mátti vera hjá þeim alveg þangað til næsta dag. Það var sko aldeilis fínt, mér fannst svo notalegt að sofa í Hjallabrekkunni að ég fór ekki á fætur fyrr en hálftíu. Aldrei myndi ég nú nenna því heima hjá mér! Svo fékk ég að leika mér og lita með nýju litunum sem amma keypti, eftir hádegið komu Ásta frænka og Haukur og svo kom mamma að ná í mig en áður en við fórum fengum við kex og fína köku sem amma bakaði. Í gær (sunnudag) fékk ég svo að fara í leikhús í fyrsta skipti, og vá hvað það var gaman! Við sáum músina og refinn og broddgöltinn í skóginum, það var sungið bæði Dvel ég í draumahöll og Grænmetislagið og margt fleira, ég sat alveg dolfallinn allan tímann, ég átti bara ekki orð, þetta var svo flott og skemmtilegt. Eins gott að ég var að fara í afmælisveislu til Nonna frænda eftir leikhúsið, annars hefði ég bara ekkert viljað fara þaðan. Það var auðvitað mjög gaman í veislunni líka, ég er nú orðin svo stór að ég gat verið bara alveg sjálf uppi að leika við Silju frænku mína. Ég hitti líka ömmu og afa á Akureyri og það var nú aldeilis gaman. Og ekki er allt búið enn, því ég eignaðist glænýjan pínulítinn frænda um helgina! Heldur betur hlakka ég nú til að kynnast honum :-)

fimmtudagur, september 30, 2004

Takk fyrir batakveðjurnar

Ég er orðin ótrúlega hress, frábær þessi sýklalyf! Ég er ennþá með svolítið vondan hósta og hor, en baugarnir eru farnir og hitinn og beinverkirnir og ég er bara í eins og ný manneskja, ótrúlegt hvað þetta andstyggðar meðal virkar fljótt og vel.

miðvikudagur, september 29, 2004

Læknirinn kom

Og ég er víst lasin á gráu svæði en ekki svörtu svo ég slepp við að fara á sjúkrahús en verð að vera rosa dugleg að taka meðalið. Ég er með slæma öndunarfærasýkingu og var komin með mjög háan hita og farin að anda hratt. Vonandi verður meðalið fljótt að reka burtu horið og hóstann.

þriðjudagur, september 28, 2004

Æ hvað ég er leið

Það er voða leiðinlegt að vera heima svona lasin í marga daga. Áðan sagði ég við mömmu, "aumi ég, ég er lasin í dag" :-( Og þegar ég var að fara að sofa bað ég mömmu að segja mér hvað krakkarnir á leikskólanum heita svo ég gæti rifjað upp allar vinkonurnar mínar sem ég sakna.

Ég er grey

Ég á ósköp bágt núna, ég er svo ægilega lasin. Ég fæ alveg upp í fjörutíu stiga hita, er alltaf hnerrandi og líður voða illa. En mamma og pabbi eru voða góð við mig, ég fæ að vera uppi með sængina mína í náttfötunum og horfa á uppáhaldsmyndirnar mínar: Skrímsli hf., Leitina að Jakobi, Tuma tígur, Leikfangasögu, Stúart litla og margar fleiri.

föstudagur, september 24, 2004

Leikskólamyndir

Mamma er búin að setja inn nokkrar myndir sem kennararnir mínir tóku á leikskólanum.

þriðjudagur, september 21, 2004

Skrímsli

Í morgun ætlaði ég að fá að ráða mér sjálf og vera bara á náttfötunum að horfa á barnatímann. En mamma vildi endilega setja mig í föt og fara með mig í leikskólann, svo ég öskraði og sparkaði og var alveg brjáluð. Þangað til mamma spurði hvort ég væri skrímsli, þá sagði ég "nei, ég er hætt að gráta" og steinhætti á stundinni. Ég er nefnilega búin að horfa mörgum sinnum á Skrímsli hf. svo ég veit alveg hvernig skrímsli eru, og ég vil sko ekki vera þannig.

mánudagur, september 20, 2004

Afmælisveislan mín

Jæja, best að ég segi ykkur nú aðeins frá frábæru afmælisveislunni minni. Það kom sko alveg fullt af fólki og gaf mér svo rosalega fínar gjafir, við mamma vorum báðar ótrúlega glaðar með þær allar. Ég fékk alls kyns föt og bækur, sápukúlur, púsluspil, pæjuveski með bursta og greiðu og spegli, Bangsímon-leikfangakassa, skraut í hárið, bangsaklukku, föt handa nýju dúkkunni minni, og alveg ótrúlega flottan vagn handa dúkkunni. Svo fengum við Grísla-afmælisköku og ég blés á kertin (með smá hjálp frá mömmu), og líka snakk og muffins og ýmislegt og svo fórum við að leika. Við máttum leika í nýju herbergjunum, sem eru sko ekkert smá flott, og ég lék mér líka úti á palli með dúkkuvagninn. Amma og afi komu með garðstólana sína og það var svo gott veður að það var bara hægt að sitja úti. Þegar veislan var búin fengum við svo að fara í pottinn, og vá hvað það var mikið fjör! Endalaust busl og skvett og hopp og bólakaf og gaman. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og við vorum öll virkilega ánægð með hann :-)

"Nýjar" myndir

Mamma er búin að setja inn myndir síðan í maí. Svo kemur restin af sumrinu vonandi fyrr en varir.

sunnudagur, september 19, 2004

Frábær veisla

Mikið skemmti ég mér vel í afmælisveislunni og mikið var ég ánægð með allar fínu gjafirnar sem ég fékk. Kærar þakkir allir fyrir mig og fyrir skemmtilegan dag. Nánari lýsingar koma síðar, en nú er ég farin að steinsofa í hausinn á mér.

laugardagur, september 18, 2004

Ég á afmæli í dag

Nú er ég orðin tveggja ára, og er sko alveg með það á hreinu hvað ég er gömul. Ég fékk dúkku, sparkbíl, Bangsímontösku og tvo Bú. Ég er sko heppin stúlka. Ég fór líka á sundnámskeið í morgun og það var rosa gaman, ég fékk að hoppa og kafa og stinga mér og fara á bólakaf.

föstudagur, september 17, 2004

Fyrsti í afmæli

Í dag var ég afmælisstelpa í leikskólanum, við bökuðum köku (ég sleikti kremið), svo stóð ég upp á meðan allir sungu afmælissönginn og svo borðuðum við kökuna. Á morgun á ég síðan afmæli og þá ætla mamma og pabbi og Sigurður Pétur að syngja fyrir mig, og á sunnudaginn verður síðan veisla og þá ætlar fullt af fólki að syngja fyrir mig. Það eru semsagt mikil hátíðahöld í tilefni af þessu merkisafmæli mínu.

fimmtudagur, september 16, 2004

Ekki seinna vænna

Nú er hver að verða síðastur að skrifa hér sem eins árs minibloggari því tveggja ára afmælið mitt er bara rétt ókomið. Ég hlakka mikið til, ég ætla að hafa veislu með kökum og pökkum og afmælissöng. Og ef einhver veit um búð þar sem gætu fengist leikskólatöskur með Bangsímon þá endilega látið mömmu mína vita.

Annars er bara allt í fínu að frétta af mér, ég fékk reyndar óhræsis vírus í munninn eftir sjúkrahúsheimsóknina og átti ósköp bágt í fimm daga. Svo fékk mamma hann líka og átti líka voða bágt, hún gat ekki einu sinni borðað súkkulaðikökuna í vinnunni sinni. En við erum alveg orðnar hressar núna, ég vona bara að við fáum ekki flensuna ljótu sem allir virðast vera að fá. Og nýju herbergin okkar Sigurðar Péturs eru alveg að verða tilbúin (eða "túlbið"), þau verða sko ótrúlega flott, Sigurður Pétur er með sjó og himin og sjóræningjaeyju og sjóræningjaskip á veggjunum og ég er með gras og himin og hús inni í hól og blóm og Bangsímon. Það verður sko gaman þegar þetta verður allt saman búið og ég get farið að leika í herberginu mínu og mamma og pabbi geta hætt að smíða.

miðvikudagur, september 01, 2004

Sjúkrahúsfjör

Ég fékk að fara á sjúkrahús og það var sko gaman! Í fyrradag fékk ég að vera þar í smástund, hjúkrunarkonan mældi hvað ég er sterk og stór og svo fékk ég að leika með dúkkur og lesa bækur og gera margt skemmtilegt. Í gær fékk ég síðan að vera allan daginn, ég fékk að horfa á múmínálfana, leika með allt dótið, púsla og lesa. Svo fékk ég að keyra um allt í rúminu, það var sko brjálað! Síðan bara svaf ég í smástund á meðan læknirinn tók mynd af bakinu mínu, sem er víst rosa fínt og flott og alveg eins og það á að vera. Ég var reyndar pínu óánægð með slönguna sem var föst í hendinni minni þegar ég vaknaði, en annars var ég bara nokkuð hress. Ég fékk síðan að keyra meira í rúminu og horfa á meiri múmínálfa, en svo þurfti ég því miður að fara heim. Ég vildi nú helst bara fara aftur á sjúkrahúsið í morgun, en það var svo sem allt í lagi líka að fara í leikskólann.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Endalausar veislur

Þessi helgi var eiginlega bara ein samfelld veisla. Á föstudagskvöldið var afmælisveislan hans pabba, ég fékk köku og snakk og fékk að vaka langt fram á kvöld og leika við Silju frænku mína og frændur mína Hauk og Pétur. Á laugardaginn fékk ég að borða meiri köku og snakk og í dag fór ég í Heiðmörk þar sem var fullt af frændum mínum og frænkum og við fengum pylsur og kökur og snúða og alls kyns góðgæti. Það var alveg frábært veður og mjög skemmtilegt, ég söng og dansaði og lék mér og hljóp um allt. Það var sko alveg brjálað.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Menningarpæja

Ég fór út í bæ með mömmu um helgina. Ég var reyndar pínu hissa að hún skyldi koma með, yfirleitt eru þau pabbi heima að smíða þegar ég fer í bæinn. En í þetta sinn fékk mamma að koma með mér (pabbi var í útlöndum í flugvélinni hátt í loft), Þórður kom líka með okkur og svo hittum við ömmu og afa í bænum. Ég skemmti mér hið besta, fékk að fara í hoppukastala og bolla sem snerust, fékk popp og blöðru, sá línudansara og dansaði með þeim og fór svo á rokktónleika þar sem ég dansaði og klappaði af mikilli innlifun með blöðru í annarri og snuddu í hinni. Við mamma vorum síðan fastar í bænum og aumingja maðurinn á hjólinu hjálpaði okkur, þetta var mikið ævintýri og mikið fjör.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Í leikskóla er gaman


Svona er ég mikil pæja á leiðinni í leikskólann. Mér finnst "losa gaman" þar, reyndar öskra ég alltaf og hangi í mömmu þegar hún skilur mig eftir, en það er nú bara af því að ég er svolítið mikið að reyna að stjórna henni þessa dagana. En svo bara borða ég morgunmatinn með bestu lyst, svo syng ég með vinkonum mínum, hnoða leir og lita, leik mér úti og inni og allir eru með. Ég fæ líka hádegismat og nónhressingu og eftir hádegismatinn fæ ég að leggja mig með vinkonum mínum, það er svo notalegt. Þegar mamma og pabbi koma að sækja mig þarf ég að sýna þeim allt og vil helst ekki fara heim.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Indjánasumar


Það vita náttúrulega allir hvernig veðrið er þessa dagana, og það þýðir að við mamma megum ekkert vera að því að láta í okkur heyra hérna. Ég er upptekin að aðlagast á leikskólanum (sem gengur mjög vel) og leika úti við Tönju og Telmu, og mamma og pabbi eru upptekin við að smíða pall í garðinn svo það er mikið um að vera hjá okkur. Þeir sem vilja meiri fréttir verða bara að koma í heimsókn :-)

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Detta meirrrra bljáða

Já þetta var nú meira brjálaða sumarfríið, ég er búin að fara á Vestfirði, Suðurland og til Danmerkur, kaupa nýtt tjald og ný dekk, fá eyrnabólgu, fara í skip, flugvél, rússíbana, vatnsrennibraut og dýragarð og lenda í miklum ævintýrum. Við mamma ætlum nú að reyna að setja saman ferðasögu en það á örugglega eftir að taka sinn tíma, svo þið verðið bara að bíða róleg gott fólk. Svo er nú mikið fjör hjá mér núna, mamma er í vinnunni en við pabbi erum heima og svo koma Tanja og Telma og leika við mig og fara með mér á róló. Það er sko "losa gaman". Við ætlum að vera heima þessa viku, og svo á mánudaginn byrja ég á leikskólanum! Vá hvað við mamma hlökkum til. Ég er nú orðin svotil altalandi, flinkari en mamma að segja err, og kann að syngja Í leikskóla er gaman (eða reyndar "gokkóla") svo ég er bara eiginlega orðin stór og alveg tilbúin að byrja í leikskólanum.

föstudagur, júlí 02, 2004

Útskrifuð

Jújú, það er rétt hjá ömmu, ég er útskrifuð frá dagmömmunni. Ég held að bæði dagmamman og mamma hafi verið svolítið leiðar yfir því, en ég er nú orðin svo stór að það er bara kominn tími til að fara á næsta skólastig :-) En mikið vorum við nú heppin að finna þau Katrínu og Hilmar, ég er sko búin að hafa það rosalega gott hjá þeim, læra margt og gera margt skemmtilegt.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Ég er snillingur

Það tókst, ég get hoppað! Ég er líka búin að æfa mig oft á dag í langan tíma og loksins tókst það, mikið er ég montin af mér.

miðvikudagur, júní 30, 2004

Mannasiðir

Nú er ég búin að læra að biðja fallega, við matarborðið í gær sagði ég: "Pabbi, meiri bollu elskan".

fimmtudagur, júní 24, 2004

Sund sund sund og meira sund

Garðabæjarsundlaug er sko ótrúlega skemmtileg, það er nefnilega rennibraut þar og ég er örugglega búin að fara fimmtíu ferðir í henni. Á mánudaginn fór ég með pabba og mömmu og þá komst ég að því hvað rennibrautin er rosalega skemmtileg og fór endalausar ferðir í henni. Á þriðjudaginn kom svo stóri bróðir með og þá fór hann með mér aftur og aftur og aftur, þá fannst mér kominn tími til að prófa mig aðeins áfram og prófaði að renna mér nokkrum sinnum á maganum og líka að renna sitjandi á litlum korki þannig að ég fór á fleygiferð og á bólakaf í lokin. Þetta var alveg klikkað fjör skal ég segja ykkur. Vonandi kemur fljótt aftur gott veður svo ég geti haldið áfram að renna mér.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Pottahelgin mikla í Víðihlíð


Á miðvikudaginn brunuðum við í Víðihlíð. Við brunuðum svo hratt að mamma gleymdi nokkrum hlutum, þar á meðal öllum fötunum mínum, svo pabbi og Sigurður Pétur skruppu rúnt í bæinn að sækja það sem hafði gleymst. Á meðan tókum við mamma á móti afa og ömmu og Sunnu og Magga og ég fór ekki að sofa fyrr en seint og um síðir. Ég var samt rosalega dugleg að fara að sofa, því allar snuddurnar mínar voru í bílnum hjá pabba og Sigurði Pétri svo ég sofnaði án þess að vera með eina einustu snuddu. Á fimmtudaginn var svo byrjað að koma pottinum fyrir, okkur Sigurði Pétri fannst heldur en ekki gaman að máta hann svolítið. Það var rosalega flott veður og Hekla skartaði sínu fegursta.


Það var nú einu sinni 17. júní, svo Sigurður Pétur heimtaði auðvitað hátíð. Og það var sko ekki amaleg hátíð, amma bakaði súkkulaðiköku með jarðarberjum og svo fengum við líka fullt af jarðarberjum að auki. Við fengum líka blöðrur, ég fékk hestablöðru og Sigurður Pétur uglublöðru. Mér fundust blöðrurnar mjög skrýtnar og skemmtilegar, þær gátu nefnilega flogið og svo skrjáfaði í þeim. Maggi var nú eitthvað að stríða mér og lét blöðruna mína fljúga alveg upp í loft þannig að ég náði ekki í spottann. Ég sá að ég gæti ekki látið stríða mér svona og æfði mig seinna í drykklanga stund í að hoppa, ég lagði mig alla fram en mér tókst nú ekki að láta tærnar lyftast frá gólfinu.En mér tókst alla vega að skemmta öllum mjög vel.


Kallarnir voru ótrúlega duglegir að smíða og setja upp pottinn svo að um kvöldið gátu allir farið í pottinn nema ég, klukkan var orðin of margt svo að ég þurfti að fara að sofa. En ég fékk að fara í hann daginn eftir og það var sko ekkert smá gaman, það er stökkpallur í honum og ég prílaði aftur og aftur upp á stökkpallinn og lét mig detta af honum á bólakaf. Á laugardaginn skruppum við líka í sund í Þjórsárdal, þar var reyndar ekki stökkpallur en hins vegar var brekka sem var mjög gaman að hlaupa niður.


Á sunnudaginn var svo kominn tími til að halda heim, það var reyndar svo gott veður að við ætluðum aldrei að komast af stað, en mamma og pabbi og afi og amma ákváðu samt að standa við það að fara torfærufjallveg heim. Það fannst okkur Sigurði Pétri sko gaman (þó við værum reyndar orðin pínu þreytt undir lokin, við vorum ekki komin heim fyrr en 11 um kvöldið). Mest fannst okkur gaman að hossast og keyra í vatn, Stóra Laxá var til dæmis mjög stór og djúp og skemmtileg. Það var líka gaman að stoppa og borða nesti, og skoða fjöllin og jöklana sem voru ótrúlega flott í góða veðrinu. En það var líka gott að koma heim og þó að klukkan væri orðin margt þá var ég ekkert til í að fara að sofa, ég vildi lesa allar bækurnar mínar, horfa á allar vídeóspólurnar, lita, kubba, púsla og bara gera allt sem er hægt að gera heima og ég var ekki búin að gera í marga daga. En svo var auðvitað líka gott að sofna í rúminu sínu, ég var nú orðin ansi lúin verð ég að viðurkenna.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Mikið var þetta nú gott

Ég vaknaði bara einu sinni í nótt til að fá mér að drekka, og steinsvaf svo á báðum mínum grænu eyrum til klukkan hálfníu í morgun. Mamma trúði því varla þegar hún leit á klukkuna. Mér er greinilega eitthvað að batna af veikinni. Í fyrrinótt vaknaði ég fimm sinnum og vildi ekki neitt, ekki drekka, ekki snuddu, ekki láta halda á mér og bara ekki neitt. Það var ekkert gaman, þetta er miklu betra að sofa svona vel og vandlega alla nóttina.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Smá skýringar

Svo enginn fari nú að hafa áhyggjur, þá er þetta ekkert hættulegur sjúkdómur, það geta allir fengið hann en hann er algengastur hjá litlum börnum og virðist vera nokkuð algengur. Meiri upplýsingar er líka að finna hér.

mánudagur, júní 14, 2004

Muuuuuu

Loksins fattaði mamma að ég er með gin- og klaufaveiki, sem heitir víst í fólki handa-, fóta- og munnsjúkdómur og er ekki sama veiki og kusurnar fá. En þess vegna er allt skinnið að detta af iljunum mínum, þess vegna vil ég bara borða banana, þess vegna er svona vont að hósta og þess vegna hef ég sofið svona illa og verið pirruð. Það er nú gott að vita hvers vegna þetta er, nú bara grær þetta vonandi fljótt.

laugardagur, júní 12, 2004

Nýjar myndir

Mamma þurfti að telja sér trú um að hún væri að gera eitthvað mikilvægara en að smíða, svo hún er búin að setja inn myndir frá því í mars og apríl, og sömuleiðis breyta myndasíðunni þannig að tenglar í nýjustu myndirnar eru núna efst í staðinn fyrir neðst.

föstudagur, júní 11, 2004

Það er gott að eiga góða að

Um síðustu helgi fóru mamma og pabbi í flugvélina og ég fékk að fara til ömmu og afa í Hjallabrekku á meðan. Mamma var búin að útskýra þetta allt saman vel og vandlega fyrir mér og ég hélt ég væri með þetta alveg á hreinu á föstudagsmorguninn og ætlaði bara að drífa mig til afa og ömmu. Þá hafði ég aðeins misskilið því ég átti að fara fyrst til dagmömmunnar og svo sóttu amma og afi mig. Ég var nú pínu svekkt yfir þessu, en jafnaði mig þó nokkuð fljótt á því. Svo var auðvitað mjög gaman um helgina, ég fór til dæmis að gefa öndunum brauð og fékk afa til að skutla mér. Svo fórum við í heillangan bíltúr til að fara í veislu þar sem ég fékk heilan haug af jarðarberjum. Ég væri alveg til í að borða alltaf bara jarðarber og ekkert annað. Og margt fleira skemmtilegt gerði ég, fór á róló, í bað, sá aumingja manninn á hjólinu og ýmislegt. Amma og afi fóru svo með mig til dagmömmunnar þegar helgin var búin og sóttu mig líka, mamma og pabbi komu nefnilega ekki fyrr en ég vaknaði á miðvikudaginn. Þetta var allt saman mjög gaman og gekk vel, eini gallinn er að það hefur eittvað verið að angra mig svo að af og til finn ég eitthvað til og líður illa, ég hef líka verið að fá hita á kvöldin og ekki getað sofið á daginn en við vitum ekki nógu vel hvað þetta er sem er að trufla mig. Kannski eru það tennur, en alla vega ekki eyrun, ég er búin að láta lækninn ganga úr skugga um það.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Húrra fyrir rörunum

Og húrra fyrir nefkirtlunum sem eru farnir. Ég er laus við kvefið mitt, alveg án þess að fá í eyrun, og það er í fyrsta skipti sem það gerist. Aldeilis er það ánægjulegt. Og svo er bara komið sumar með sól úti, sól inni, sól í hjarta og sól í sinni, og við leikum úti allan daginn hjá dagmömmunni. Alveg er ég hæstánægð með það, það er svo gaman að leika úti og sofna dauðþreyttur á kvöldin.

þriðjudagur, júní 01, 2004


Við Sunna frænka

Hér sjáið þið mig og nýja bílinn

Svona er ég dugleg að moka

Allt að gerast

Pabbi var í útlöndum í síðustu viku, á meðan keyptum við mamma og Sigurður Pétur handa honum bíl. Hann er stór, svartur og mjög flottur, við krakkarnir erum mjög ánægð með hann og sem betur fer pabbi líka. Um helgina fórum við svo í Víðihlíð og byrjuðum að undirbúa að koma þar fyrir heitum potti. Ég var mjög dugleg að hjálpa við að moka og mamma og pabbi og Sigurður Pétur voru nokkuð dugleg líka. Svo voru þarna afi og amma, Þórður, Sunna og Maggi. Mér fannst sko ekki amalegt að hafa allt þetta fólk í kringum mig og hafði reglulega nafnakall.

föstudagur, maí 28, 2004

Í leikskóla er gaman

Í gær fékk ég póst frá leikskólanum mínum tilvonandi. Hann heitir Ásar og ég byrja þar 9. ágúst. Ég fékk bók með myndum frá leikskólanum og þar er líka sagt hvað er gert og svona. Við mamma erum rosalega spenntar. Ég veit að vísu voða lítið hvað leikskóli (eða gokkóli) er, en mig grunar að það sé eitthvað mjög skemmtilegt, að minnsta kosti er fullt af krökkum að gera eitthvað skemmtilegt á myndunum í bókinni.

þriðjudagur, maí 25, 2004

Meira mas

Ég tala svo mikið þessa dagana, ég læri ný orð á hverjum degi og æfi mig stíft frá morgni til kvölds. Mér finnst afskaplega gaman að tala um fólkið sem ég þekki, segja hvað fjölskyldan mín heitir og hvað ég er gömul. Ef mamma gleymir að spyrja hvað ég sé gömul þegar hún er búin að spyrja hvað ég heiti, þá spyr ég bara sjálf "ha bommu". Ég er líka rosa flink að telja, eidd, dei, bimm, gess, hjö, átta, svo kemur eitthvað meira sem ég man ekki nema mamma hjálpi mér. En uppáhaldstalan mín er bimm og ég enda yfirleitt á henni. Hins vegar finnast mér þrír og fjórir ekkert skemmtilegar tölur og hef þær aldrei með.

Viðburðarík helgi

Það var svo mikið að gera hjá mér um helgina að það var bara eiginlega hver stund frátekin. Á föstudaginn komu amma Dissinna og afi Ón til okkar í heimsókn. Mikið var það nú gaman, vonandi geta þau komið oftar og lengur í heimsókn þegar mamma og pabbi verða búin að smíða herbergin okkar. Á laugardaginn fórum við Gissu boððiðinn með Dunnu og Doððu í ævintýraferð. Það var fjölskyldudagur í vinnunni hennar Sunnu og við fórum á Úlfljótsvatn, fengum pylsur og blöðrur og fórum í leiki. Það rigndi reyndar alveg endalaust, en sem betur fer gátum við borðað inni svo það gerði ekkert til. Svo bara vorum við úti í pollagöllunum að leika. Á sunnudaginn fór ég síðan í sund, keyrði pabba í flugvélina og fór svo til afa Bumubu og ömmu Igga Ósa að leika í garðinum í góða veðrinu. Ég hljóp um allt, gramsaði í moldinni og klappaði ormunum og reyndi að detta í tjörnina en það tókst nú ekki. Í gær fór ég svo til eyrnalæknisins míns, rörin eru víst bara glansandi fín og allt í besta lagi. En svo er ég reyndar að kvefast, svo við mamma erum ekki alveg rólegar. Vonandi slepp ég samt bara vel frá því.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Algjört partýdýr

Já fjörið var sko aldeilis ekki búið, því aðalpartýið var eftir. Ég fékk semsagt að fara í Júróvisjón partý! Það var hjá afa og ömmu, við grilluðum góðan mat og svo fékk ég fullt af jarðaberjum. Ég dansaði náttúrulega og dillaði mér og var í miklu fjöri. Svo fékk ég aldeilis skemmtilega heimsókn á sunnudaginn því þá komu Haukur og Pétur og Silja. Þetta var semsagt mjög skemmtileg helgi. Ég er líka miklu hressari en um síðustu helgi, hinn jaxlinn er komin í gegn svo mér líður miklu betur. Svo eiga reyndar eftir að koma tveir í viðbót en það verður ekki alveg strax held ég.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Partífjör

Í gær var sko gaman! Við fengum að borða fyrir framan sjónvarpið og horfa á frábæra tónlist á meðan, ég svoleiðis rokkaði og klappaði og söng með, þetta var algjört æði. Enda var ég í svo miklu fjöri að ég gat ekki sofnað fyrr en hálfellefu! Ég er annars ekkert sérlega hress þessa dagana, jaxlarnir eru alveg að gera mig klikkaða og alla í kringum mig líka. Vonandi fer það að verða búið.

fimmtudagur, maí 06, 2004

Nýjar myndir

Ótrúlegt en satt, mamma er búin að setja nýjar myndir frá því í janúar og febrúar á myndasíðuna mína.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Sjúkkitt

Þetta var víst ekkert eyrnabólga, bæði eyrun mín eru bara hrein og fín. Sennilegast var ég bara svona lasin út af jöxlunum sem ég er að fá, annar er meira að segja komin í gegn. Mamma er nú algjör að taka ekki eftir neinu! Jæja, en ósköp vorum við fegnar að það skyldi vera allt í lagi með eyrun.

Rör skrör

Hrrrmpf er það nú! Ég var búin að vera með rörin í viku þegar ég fékk kvef, og viku seinna kom svo í ljós að ég var komin með eyrnabólgu, þrátt fyrir rörin og að nefkirtlarnir væru farnir. Svo ég fór til læknis og fékk meðal, tók síðasta skammtinn af því í gær og núna er ég aftur komin með hita. Ábyggilega bara sama eyrnabólgan ennþá, ég fékk annað meðal en venjulega og það hefur kannski bara ekkert dugað. Alla vega fer ég til læknis á eftir og læt athuga málið.

Jæja, en svo ég segi nú frá einhverju skemmtilegu þá er ég nýkomin frá Akureyri, við pabbi og mamma voru í viku hjá afa og ömmu Dissennu (Giselu). Það var alveg ótrúlega skemmtilegt og ég lenti í mörgum ævintýrum. Ég fór að andapollinum og borðaði brauð (ég var miklu svengri en endurnar) og í sund (áður en ég fékk eyrnabólguna). Við fórum líka í bíltúr í Mývatnssveit og skoðuðum dýrin. Ég þóttist heldur betur ætla að klappa þeim, en ég var svo heppin að kindurnar og hestarnir vildu ekki láta klappa sér svo ég þurfti ekki að standa við það. Hins vegar vildu kýrnar og kálfarnir það alveg, en þá reyndist hjartað mitt aðeins of lítið, ég stökk bara um hálsinn á mömmu og sagðist vera búin að klappa þeim. Þetta var nú samt mjög gaman og mikið ævintýri. Svo fórum við líka í Námaskarð, mamma var nú alveg hissa hvað mér fannst það skemmtilegt. Það var alls staðar muuu eitt (mjög heitt) og skrýtin jörðin. Ég vildi sko skoða hvern einasta smápoll á svæðinu, mér fannst þetta svo spennandi.

Svo var náttúrulega aðaltilefni ferðarinnar, nefnilega ittla afa (veislan hans afa). Það var ótrúlega spennandi, ég fékk að fara í kjól og spariskó og fara í nýja safnið hans og borða margar kleinur og dansa í marga hringi. Það var troðfullt af fólki og sumt af því var víst meira að segja voða merkilegt. Þetta var sérdeilis ánægjulegt allt saman.

Jæja, þá þarf ég að drífa mig til læknisins. Meira síðar...

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Það sem Rósa Elísabet sagði ekki frá

Það var nefnilega þegar Rósa Elísabet átti að fara að sofa. Hún var búin að liggja einhverja smástund í rúminu og trekkja upp spiladósina og hjala eins og hún gerir venjulega, og svo fór hún að kalla á mömmu sína. Það gerist oft einu sinni eða tvisvar þegar hún er að fara að sofa að snuddurnar "detta" á gólfið og þá rétti ég henni þær aftur. Nema þegar ég kem inn til hennar þá eru ekki bara allar fjórar snuddurnar á gólfinu heldur líka dúkkan, kisan, bangsinn, svínið, koddinn og sængin! Ég tíndi allt saman aftur upp í rúmið, sagði góða nótt og fór fram. Innan við mínútu seinna var aftur kallað og aftur sama sagan, rúmið gjörsamlega galtómt fyrir utan einn lítinn orm sem þóttist ekki ætla að fara að sofa. Þá útskýrði ég fyrir henni að það sem hér eftir færi á gólfið yrði að vera á gólfinu, það kæmi ekki aftur upp í rúmið. Það leist henni ekki á og ákvað frekar að fara bara að sofa, með sængina og koddann, tuskudýrin og snuddurnar allt saman hjá sér.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Í dag gerðist þetta helst

Gissu gagí. Afi, amma. Afi baððu. Bamm. Anna baððu. Amma issa bó. Gúa gejji. Gúkkuna, dudduna, mjá. Diddi. Dólli.

Sigurður Pétur fór í karate. Á meðan fór ég til afa og ömmu. Afi blés upp blöðru. Hún sprakk. Þá blés hann upp aðra blöðru. Amma las fyrir mig bók. Þegar ég kom heim fór ég að kúra í kerrunni. Ég tók með mér dúkku, snuddu og kisu. Þegar ég vaknaði skoðaði ég myndir með mömmu og spilaði tónlist.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Páskafjör

Mikið voru þetta nú skemmtilegir páskar! Ég fór út á Snæfellsnes og var þar í húsi sem heitir Stóri-Kambur í marga daga. Þar voru með mér pabbi og mamma, afi og amma, Dunni (Sunna), Gaggí (Maggi) og Dauju (Þórður). Mér fannst nú aldeilis ekki amalegt að hafa allt þetta fólk til að leika við mig og sneri þeim öllum í kringum mig eins og skopparakringlum. Ég lét þau elta mig og kitla, lesa, lita, kubba, fara út að róla, skoða hesta og margt fleira. Amma kenndi mér þrjá stafi, R, Ó og A, og nú er mamma á fullu að kenna mér að lesa.

Við fórum í marga skemmtilega leiðangra, til dæmis fórum við upp að jöklinum og ég prófaði að láta draga mig á snjóþotu. Fyrst þorði ég reyndar ekki að setjast á þotuna og vildi bara draga hana sjálf, en svo þegar ég loksins þorði þá var sko fjör maður! Ég bara hló og hló endalaust, sérstaklega þegar mamma dró mig niður brekku svo ég fór dálítið hratt. Við fórum líka á Djúpalónssand og ég labbaði alla leið yfir í Dritvík. Reyndar með góðri hjálp frá öllum hinum, ekki síst afa, en ég var samt líka mjög dugleg að labba sjálf. Og við fórum á Búðir þar sem var fullt af fuglum, það fannst mér mjög spennandi, sérstaklega að heyra í þeim. Mér fannst líka spennandi að henda steinum í sjóinn, þá heyrðist sko skemmtilegt hljóð.

Eftir að við komum svo heim hefur það helst borið til tíðinda að ég er komin með rör í eyrun og laus við nefkirtlana. Það gekk bara vel, ég var reyndar dálitla stund að jafna mig eftir að ég vaknaði, ég skildi eiginlega ekkert hvað hafði gerst og var öll eitthvað ringluð og vansæl. Mér var líka hálfillt í maganum mínum, var svöng en hafði samt ekki lyst á neinu. En svo jafnaði ég mig nú fljótt og nú er ég bara kát og glöð að leika við stóra bróður sem ég var búin að sakna mjög mikið um páskana.

mánudagur, apríl 05, 2004

Hress og kát

Já nú er ég sko hress og kát. Ég er alveg búin að jafna mig eftir óhræsis sprautuna og ég fékk meðal (melali) til að losa mig við yfirvofandi eyrnabólguna, svo nú er bara ekkert að angra mig. Helgarnar eru hver annarri skemmtilegri núna, á laugardaginn fór ég í heimsókn til afa og ömmu og hitti þar Sunnu og Magga, borðaði fullt af súkkulaðikexi og skaut nokkrar hænur. Á sunnudaginn var ótrúlega gott veður og við mamma fórum út að prófa þríhjólið sem mamma og pabbi fóru loksins að sækja um daginn, það nefnilega gleymdist í Bakkastöðum þegar þau fluttu þaðan fyrir tveimur árum. Mér fannst mjög spennandi að prófa hjólið, ég er reyndar aðeins of lítil fyrir það ennþá svo ég verð að drífa mig að stækka svolítið. Svo fórum við í labbitúr og hittum litla stelpu sem á heima rétt hjá okkur, hún er eins árs og heitir Ísey. Það var nú aldeilis frábært, kannski getum við leikið okkur saman þegar við erum búnar að stækka smá. Við hittum líka litla kisu sem var að leika sér og hoppa upp í loft að reyna að veiða flugur. Það fannst mér fyndið og reyndi að herma eftir kisunni. Svo kom hún líka til mín og leyfði mér að klappa sér smá, það fannst mér ótrúlega spennandi. Þetta var sem sagt morgunleiðangurinn, svo þegar ég var búin að leggja mig í kerrunni fórum við í sund og þar fann ég upp nýjan leik sem er mjög skemmtilegur. Hann er þannig að ég sit uppi á svona flötum korki og velti mér svo af honum út á hlið og beint á bólakaf.

föstudagur, apríl 02, 2004

Læknisheimsókn

Við mamma fórum til hans Einars skemmtilega læknis áðan, hann kíkti í eyrun mín, nefið og hálsinn og ég var auðvitað ótrúlega dugleg eins og alltaf. Ég er með smá kvef og þar af leiðandi er ég að fá eyrnabólgu eins og venjulega, hún er eiginlega ekki alveg komin en næstum því, svo ég fæ meðal til að losa mig við hana. Svo þarf ég nefnilega að vera orðin vel frísk eftir tvær vikur því þá ætlar hann Einar að taka nefkirtlana mína og setja rör í eyrun. Þá hætti ég vonandi að fá allar þessar eyrnabólgur. Þó ég verði svo sem ekkert mikið lasin, þá er samt vont að vera alltaf með eitthvað pjæ í eyrunum og heyra ekki nógu vel, og það er heldur ekki nógu gott að vera alltaf að fá meðal.

miðvikudagur, mars 31, 2004

Mamma kjáni

Eins og hún ætlaði nú að muna eftir því og hafa í huga, þá var hún búin að steingleyma að ég var í sprautu 10 dögum áður en ég varð lasin. Og þessi sprauta lætur mann víst einmitt oft verða lasinn með háan hita 5-10 dögum seinna. Svo þá vitum við alla vega hvað var að mér, ég held ég sé meira að segja að verða hitalaus svo vonandi er þetta bara búið. Ég væri nú alveg til í að fara að komast til dagmömmunnar, við mamma erum að verða pínu þreyttar á hvor annarri, hangandi inni allan daginn.

þriðjudagur, mars 30, 2004

Enn og aftur lasin

Ég er orðin ósköp lasin og fékk næstum 40 stiga hita. Það var reyndar eiginlega bara gaman, ég varð alveg rugluð og bara hljóp um og bullaði. Svo gaf mamma mér stíl og þá varð ég bara voða þreytt. Við erum búnar að fara tvisvar til læknis og ég er ekki komin með nýja eyrnabólgu, bara ennþá eitthvað pjæ í eyrunum síðan síðast. En ég er komin með hor og hósta svo það er víst mikil hætta á að ég fái eyrnabólgu einu sinni enn. Ég reyni bara að vera dugleg að fá nefdropa og drekka vatn og vona að ég sleppi.

Annars var rosalega gaman hjá mér um helgina, ég fór í sund með pabba og mömmu og Sigurði Pétri og það var sko endalaust fjör. Ég bara kafaði og synti og náði í bolta og lék mér allan tímann. Helst vildi ég bara láta sleppa mér svo ég gæti synt sjálf. Ég er viss um að ég get það alveg, þó ég hafi reyndar strax farið á kaf þegar mamma sleppti mér. Á sunnudaginn fór ég svo í afmælisveislu til þeirra Hauks og Péturs og Silju. Það var sko gaman, fullt af krökkum sem voru að leika við mig og fullt af Stubbadóti og ég fékk bæði köku og snakk. Frábært bara!

fimmtudagur, mars 25, 2004

Meiri dagurinn

Já, þetta var nú meiri dagurinn í gær. Ég held ég hafi bara verið eitthvað utan við mig eftir að Lappi dó, alla vega var ég ekki alveg að hugsa skýrt og ákvað að skella mér niður tröppurnar á sparkbílnum mínum!!! Það var rosa fjör í örstutta stund, en svo náttúrulega endaði ferðin frekar illa þó hún hefði getað endað miklu verr. Ég fékk bara smá skrámur í framan og stóra kúlu á ennið, mamma var alveg viss um að ég væri mölbrotin svo ég slapp víst bara ótrúlega vel.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Vertu sæll Lappi naggrís

Ég á eftir að sakna þín, mér fannst svo gaman að fá að klappa þér og gefa þér gulrót. Sigurður Pétur er ósköp leiður, enda var hann búinn að þekkja þig svo lengi. Takk fyrir samveruna Lappi minn og sofðu rótt.

sunnudagur, mars 21, 2004

Frábær helgi

Þetta er nú aldeilis búin að vera skemmtileg helgi. Í gær komu amma og afi og náðu í mig og fóru með í leiðangur, við fórum í fjöru að henda steinum og pota í sjóinn og við gáfum öndunum í Kópavogi brauð. Ég skemmti mér líka við að elta öldur, og hlaupa upp á þúfu og hoppa aftur niður. Þetta var mikið fjör. Svo fór ég heim með þeim og lét lesa fyrir mig allar bækur sem ég fann og svo fékk ég að borða lifrarpylsu og vínber og alls kyns gott. Í morgun fórum við svo loksins aftur í sund. Það fannst mér alveg frábært og sönglaði "dunn, dunn" alla leiðina í sundið. Ég skemmti mér líka rosalega vel við að kafa og elta bolta og busla um allt. Ég var miklu öruggari en um daginn, þetta verður fljótt að koma aftur þó ég sé aðeins búin að gleyma frá því á sundnámskeiðinu. Þegar við vorum búin í sundi vildi ég helst bara fara strax aftur í sund, en mamma lofaði að við skyldum fara aftur fljótlega. Svo fékk ég að fara að sjá Sigurð Pétur í karate, það var sko flott! Núna er ég að leggja mig, og svo ætluðu pabbi og mamma með okkur í húsdýragarðinn, en það er eitthvað svo kalt og hvasst að ég held að þau séu að guggna á því. Við finnum okkur þá bara eitthvað annað skemmtilegt að gera, kannski förum við í einhvern smá leiðangur.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Heilsufréttir og fleira

Ég var nú sem betur fer fljót að jafna mig á ótætis gubbupestinni, en bakteríurnar náðu víst að hreiðra um sig í eyrunum mínum svo nú er ég komin með eyrnabólgu enn eina ferðina. Ég var samt ágætlega hress um helgina og það var voða gaman að fá Silju og Hauk í heimsókn á laugardaginn. En ég fékk ekkert að fara í sund af því að ég var með smá hita. Það gengur ekki nógu vel hjá okkur að komast í sund, um daginn ætlaði mamma að fara með mig þegar hún náði í mig til dagmömmunnar, en þá komumst við að því að innisundlaugin er bara opin um helgar. Ég var alveg ægilega svekkt því við vorum komnar í sundlaugina þegar við komumst að þessu, ég lá á glerinu og kallaði "dottna, dottna". Ég er auðvitað alltaf að læra að segja eitthvað nýtt, nú er ég farin að setja saman þrjú orð og nýja uppáhaldsorðið mitt er "mi" sem þýðir minn/mín/mitt. Eins og til dæmis "haaa dudda mi" eða "haaa gúga mi" (hvar er kakan mín). Ég kann líka að segja nöfn allra í fjölskyldunni, mamma heitir Deddlinn, pabbi heitir Gakkúm, bróðir minn heitir Dassi og sjálf heiti ég Dossa og er essimm (eins árs).

föstudagur, mars 12, 2004

Veslings ég

Ég er komin með hræðilega gubbupest, og ekki nema vika síðan ég var síðast með gubbupest! Verst að þessi er miklu verri en sú síðasta, ég finn ósköp mikið til og líður voða illa. Mér líður samt ágætlega á milli, en ef ég borða eitthvað þá bara tollir það í maganum mínum í 5-10 mínútur. Ég vona bara að mér batni fljótt, því á morgun ætlar hún Silja frænka mín og Haukur frændi minn að koma í heimsókn til okkar, það verður örugglega mikið fjör.

miðvikudagur, mars 10, 2004

Stór áfangi

Nú er ég aldeilis orðin stór stúlka, ég fór alein til afa og ömmu í Hjallabrekku og var þar í marga daga og svaf í nýju rúmi og allt. Mamma og pabbi voru í stóru flugvélinni á meðan, ég skil nú ekki hvernig þau nenntu að vera svona lengi í henni, enda voru þau dauðþreytt þegar þau komu heim. Það var mjög gaman hjá afa og ömmu, amma náði í mig til dagmömmunnar á föstudaginn og svo bara fór ég að leika mér og borða matinn minn og svona. Og svo fór ég barasta að sofa. Mér fannst samt betra að hafa ömmu hjá mér í smá stund að strjúka bakið mitt og syngja, svona á meðan ég var að venjast nýja rúminu. Svo vakti ég afa eldsnemma á laugardaginn og fór að leika mér og borða og skottast eins og ég geri. Um daginn gerðum við afi og amma alls kyns skemmtilegt, við fórum meðal annars að gefa öndunum brauð (þær voru reyndar ekkert svangar svo ég bara borðaði brauðið sjálf), í rúllustigann í Smáralind og í heimsókn til Ástu frænku þar sem ég fékk köku með afskaplega góðu kremi. Svo fór ég bara aftur rosalega góð að sofa og vaknaði aftur eldsnemma rosalega góð og hélt áfram að hafa það gott og skemmtilegt með ömmu og afa. Amma bakaði vöfflur í kaffitímanum. Það fannst mér nú ekki amalegt, ég var bara næstum orðin södd af þeim þegar mamma og pabbi loksins komu. En ég gat nú látið mig hafa það að narta aðeins meira í þær þeim til samlætis. Svo vildi ég nú bara fara að drífa mig í bílinn og fara heim. En þetta var mjög skemmtileg helgi og ég held ég hafi alveg verið stillt og góð eiginlega allan tímann. Takk fyrir mig afi og amma, ég hlakka til að koma næst.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Ótrúlegt en satt

Mamma hafði það af að setja inn fleiri myndir, nú eru komnar myndir frá áramótunum á myndasíðuna mína. Svo er bara að halda áfram mamma mín, nú er bara megnið af janúar og allur febrúar eftir.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Allt í góðu

Jájá, ég er bara hress og kát þessa dagana. Ég var ekkert komin með nýja eyrnabólgu, sennilega bara með óþægindi af vökvanum sem er ennþá í eyrunum á mér en það var allt bara eðlilegt. Nú eru reyndar 5 börn hjá dagmömmunni minni orðin lasin, ég vona að ég verði ekki líka lasin, þá kemst ég ekki í sund um helgina. Mamma er nefnilega búin að lofa að vera dugleg að fara með mig í sund núna, ég fór um síðustu helgi í fyrsta skipti síðan á sundnámskeiðinu í haust. Ég var rosalega dugleg og gat alveg kafað og allt, en ég þarf samt aðeins að rifja upp líka, ég var orðin svo ótrúlega dugleg á námskeiðinu.

Í gær var öskudagur. Sigurður Pétur var í ótrúlega flottum beinagrindarbúningi, mér varð nú ekki alveg um sel þegar hann setti á sig grímuna, enda var hann þá bara alveg eins og beinagrind. Ég fékk að fara með ljónshaus til dagmömmunnar, ég hafði mjög gaman af því og stóð við spegilinn og urraði á sjálfa mig. Í fyrradag var víst sprengidagur, mamma og pabbi fengu saltkjöt og baunir í vinnunni en við Sigurður Pétur fengum ekkert saltkjöt, svo mamma er búin að lofa að elda það handa okkur á morgun í staðinn. Og þar á undan var bolludagur, þá fengu allir rjómabollu nema ég. Ég var svo ómöguleg hjá dagmömmunni, skældi bara og vildi ekki borða neitt, ég borðaði eina skeið af hafragraut og einn bita af banana. Kannski var ég eitthvað lasin og kannski var ég bara mömmustelpa og afbrýðissöm út í nýju börnin hjá dagmömmunni. Alla vega var ég voða glöð þegar mamma kom og sótti mig, og ennþá glaðari þegar ég fékk að borða þegar við komum heim því ég var náttúrulega orðin hræðilega svöng. Það er ekki alltaf auðvelt að vera eins árs þegar heimurinn er ekki eins og maður vill.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Jæja

Næstum tvær vikur liðnar síðan við mamma skrifuðum síðast, skömm að þessu bara! Það er víst eins gott að bæta úr þessu, þó ekki væri nema til að halda utan um sjúkrasöguna mína. Magapestin var fljót að jafna sig og ég slapp víst bara vel frá henni, en svo á mánudeginum hringdi dagmamman í mömmu og þá var ég orðin alveg ómöguleg og komin með hita. Svo mamma náði í mig og fór með mig til læknis og þá var ég komin með eyrnabólgu í hitt eyrað. Svo ég fékk nýtt sýklalyf, Zitramax, sem ég var auðvitað rosalega dugleg að taka. Og ég er líka alltaf rosalega dugleg í pústinu, ég er meira að segja búin að læra að segja "anda" (adda). Ég er eiginlega laus við hóstann, en ég er ekki viss um að eyrun mín séu komin í lag, alla vega ætlar mamma að láta lækninn kíkja á mig á eftir og hún ætlar líka að stelast til að láta hann kíkja á augað sitt í leiðinni, hún er eitthvað voða pirruð í því.

En ég þurfti sem sagt að vera heima alla síðustu viku, mamma og pabbi skiptust á að vera hjá mér. Ég var orðin frekar leið á að hanga heima og fá ekki einu sinni að fara út, svo ég var voða glöð að við skyldum fara í Víðihlíð um helgina. Sigurður Pétur var líka rosalega glaður, hann hoppaði og hrópaði "Víðihlíð, Víðihlíð", þegar hann vissi að við værum að fara þangað. Enda var mjög gaman þar, við fórum í bíltúr að skoða Hjálparfoss og út að leika og skoða tré, ég var mjög hrifin af þeim og ég kann líka alveg að segja tré (dé). En verra var að það hefur komist mús í dótakörfuna mína sem ég geymi í Víðihlíð, og hún var búin að naga fullt af dóti og sumu þurfti mamma bara að henda.

Og nú er ég semsagt komin aftur til dagmömmunnar og það er búið að vera mikið fjör, ég var svo glöð að hitta hina krakkana að ég fagnaði þeim öllum með nafni og klappi þegar þau komu inn úr lúrnum sínum. ég er svo mikið að læra ný orð núna, til dæmis kann ég að segja nafnið mitt (Dossa) og nafnið hennar mömmu (Dedli), ég kann að segja kitla (dídla), opna (dotna), upp (appi), búin að sitja (bunninni affa) og margt margt fleira.

föstudagur, febrúar 06, 2004

Aumingja ég

Ég er nú eiginlega alveg orðin góð af hóstanum og eyrnabólgunni, enda er ég búin að vera svo rosalega dugleg að taka meðalið mitt og anda að mér pústinu. En ég í gær átti ég svo voða erfitt með að sofna, mamma skildi ekkert í því hvað gæti verið að angra mig, ég náði samt að sofna en svona klukkutíma seinna vaknaði ég bara með gubb í rúminu mínu. Það var ekki skemmtilegt. Mamma setti mig í sturtu sem mér fannst heldur ekki skemmtilegt. En svo fékk ég að fara upp með sængina mína og borða saltstangir og frosin ber, það var ljómandi fínt. Svo svaf ég alveg í alla nótt og vaknaði ágætlega hress í morgun en ég fæ samt að vera heima með pabba í dag.

sunnudagur, febrúar 01, 2004

Pabbi er bestur

Pabbi minn er sko besti pabbi í heimi og miklu betri en mamma mín! Í morgun er ég búin að fá hjá honum: seríos, vínber, pylsu, súkkulaðiköku, gulrótarköku og snakk. Í gær var afmælisveisla fyrir Sigurð Pétur, hann bauð öllum krökkunum í bekknum sínum og það var sko mikið fjör. Honum fannst eiginlega aðeins of mikið fjör en mér fannst bara mjög gaman. Ég er líka bara í svo góðu skapi núna, mér finnst svo gott að líða svona vel og vera ekki með eyrnaverk og hósta.

föstudagur, janúar 30, 2004

Miklu betri

Mikið á hann Alexander Fleming allt gott skilið fyrir að finna upp pensillínið. Mér líður miklu betur og er búin að sofa vært alla nóttina núna tvær nætur í röð. En ég er samt ennþá með vondan hósta og slím ofan í mér, svo læknirinn vildi að ég fengi púst. Það finnst mér ekki gaman.

Annars svo ég segi ykkur frekar eitthvað skemmtilegt, þá er ég auðvitað alltaf á fullu að læra ný orð. Nú get ég sagt nafnið á dagmömmunni minni, Katrín (dadlí). Ég kann líka að segja kitla (dihdli), mér finnst nefnilega mjög gaman að láta kitla mig og ekki síður finnst mér gaman að láta kitla einhvern annan. Svo er ég orðin mjög flink í að búa til tveggja orða setningar; halló pabbi, bless pabbi, bless fugl (iss bubbi) og bless margt fleira. Og auðvitað hið sívinsæla hvar er eitthvað; hvar er snudda, hvar er pabbi, hvar er mamma, hvar er fuglinn (haaaa bubbi), o.s.frv.

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Hann átti afmæli í gær...

hann Sigurður Pétur, til hamingju með það elsku stóri bróðir. Á eftir kemur hann og opnar pakkann frá mér og þá fæ ég að knúsa hann. Annars getum við mamma lítið skrifað núna, að minnsta kosti lítið af viti, því við sváfum svo ósköp lítið síðustu tvær nætur. Ég er nefnilega með hræðilega eyrnabólgu í öðru eyranu mínu svo að það kom gat á hljóðhimnuna í gær. Ég er búin að fá sýklalyf en samt vaknaði ég klukkan fimm í morgun og gat ekki sofið lengur af því mér var svo illt, vonandi virka lyfin fljótt svo við getum öll sofið vært næstu nótt.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Nýjar myndir og nýtt skipulag

Ég er að reyna að ná einhverri stjórn á myndunum hjá okkur og koma einhverjum þeirra út á netið en gengur illa að hafa undan Markúsi sem er alveg óður með nýju myndavélina. Alla vega þá er komin ný myndasíða með hlekkjum á öll albúmin og komið nýtt albúm með myndum frá aðventu og jólum. Fleiri myndir eru svo vonandi væntanlegar fljótlega.

sunnudagur, janúar 11, 2004

Meira mas

Við mamma bættum nokkrum orðum við listann hérna fyrir neðan, við gleymdum nokkrum dýrum og líka bolta, sem er frekar kjánalegt að gleyma því ég er búin að kunna það mjög lengi. Ég er alltaf að æfa mig í að tala núna, bendi á alla hlutina í kringum mig og segi hvað þeir heita eða segi anna ef ég veit það ekki. Svo bendi ég líka á fólkið í kringum mig og segi hvað það heitir og ég er meira að segja að byrja að reyna segja hvað ég heiti, sem er enna eða eitthvað svoleiðis.

Ég er náttúrulega búin að gera margt skemmtilegt um jólin, á Þorláksmessu og aðfangadag vorum við hjá ömmu og afa í Hjallabrekku, mér fannst nú ekki leiðinlegt að vera eins og drottning í rosa fína jólakjólnum mínum og var líka afskaplega stillt og prúð, enda ekki annað hægt þegar maður er svona fínn. Á jóladag var ég í jólaboði hjá Silju frænku og á annan í jólum kom Sigurður Pétur og við opnuðum fleiri pakka. Ég fékk margt fínt í jólagjöf, rosa fína kápu og húfu og vettlinga við, ég er sko alveg eins og rússnesk keisaraynja í því, og alls kyns föt og leikföng sem ég er búin að hafa afskaplega gaman af. Svo kom óveður og ég fór á jólaball og strax eftir jólaballið keyrðum við til Akureyrar í óveðrinu. Mér fannst það nú ekkert rosalega skemmtilegt en pabbi og mamma sungu fyrir mig þangað til ég sofnaði loksins einhvers staðar uppi á Holtavörðuheiði og svaf alla leiðina til Akureyrar. Það var mikið fjör á Akureyri hjá ömmu og afa, fullt af krökkum, góðum mat, kleinum og alls kyns fíneríi. Svo þegar jólin voru búin þá keyrðum við aftur heim og allt fór að ganga sinn vanagang, ég var voða glöð að fara aftur til Katrínar dagmömmunnar minnar og hitta aftur vini mína þar. Mér finnst líka afskaplega skemmtilegt að spjalla við mömmu um hvað ég hafi gert hjá dagmömmunni og við hverja ég hafi verið að leika, þá spyr hún hvort ég hafi leikið við þennan og hinn og hvort við höfum leikið með þetta og hitt, og ég segi jamm og ef hún hættir þá segi ég meija. Ég veit nefnilega alveg hvað mér þykir skemmtilegt og kann líka alveg að láta vita af því. Til dæmis er ég orðin hundleið á Dvel ég í draumahöll sem mamma var alltaf að syngja þegar ég fór að sofa, nú vil ég bara láta syngja mu-mu-mu. Helst myndi ég vilja að mamma væri hjá mér að syngja mu-mu-mu alveg þangað til ég sofna.

föstudagur, janúar 02, 2004

Orð af orði

Í tilefni af nýju ári og áramótaheitum um að vera duglegri við hitt og þetta, ætlum við mamma loksins að reyna að taka saman orðaforðann minn, ég er nefnilega farin að kunna fullt af orðum þó stundum segi ég þau aðeins öðru vísi en aðrir.

jæja
takk (dah)
nei
já (amm)
vaaaá
æ-æ
datt

halló (ajó)
bless (iss)
sitja (affa)
smekkur (datti)
seríos (isi)
kex (iss)
kaka (gúgú)
skeið (dei-i)
drekka (datta)
brauð/borða (bauja)
smjör (nana)
banani (nana)
kleina (geija)
meira (meija)
búið (buja)
snudda (dudda)
bleyja (beija)
pabbi
mamma
afi
amma
Sigurður Pétur (ana)
dansa (asa)
hundur (affa)
kisa (maaa)
kusa (muu)
fiskur (bobobb)
fugl (búbba)
svín (khr)
krókódíll (khr)
hestur (hnegghljóð)
kind (meheheh)
bolti (dahta)
bíll (brumma)
kerra/keyra (geija)
munnur (munnu)
nef (nene)
auga (auja)
eyra (eija)
enni
húfa (vúa)
vettlingar (datti)
sokkar (gakka)
peysa (issa)
jólasveinn (óvóv)
flugvél (úa)
stubbarnir (dutta)
Lala (jaja)
Núnú