þriðjudagur, mars 27, 2007

Að lifa er að læra

Um helgina fórum við fjölskyldan í óvissubíltúr. Það var mjög spennandi, við villtumst um miklar ævintýraslóðir í þoku og rigningu, og svo fundum við allt í einu veitingahús (Hafið bláa) þar sem var kaffihlaðborð. Svo rötuðum við sem betur fer aftur heim. Á leiðinni að veitingahúsinu fannst mér vegurinn á einum stað aðeins of ævintýralegur, þegar ég horfði allt í einu bara beint niður í sjó úr glugganum mínum. Þá sagði ég, "ég vil ekki deyja, ég er svo ung!" Og svo bætti ég við, "ég er ekki búin að læra neitt!" Já, það er víst eins gott að halda sig við efnið, það er svo margt sem maður þarf að læra í þessu lífi. Svo í dag lærði ég um samhljóða og sérhljóða, og svo lærði ég líka að brjóta saman sokka. Ég var sko heima með mömmu og Guðmundi Steini, ég er lasin og pabbi í útlöndum, bara sama ástand og venjulega :-/ Ég er með andstyggilegar bakteríur í hálsinum (streptókokka) og þarf að taka ennþá andstyggilegra meðal til að drepa þær. En sem betur fer er meðalið líka mjög sterkt og ég er strax orðin svo hress að ég fæ að fara í leikskólann á morgun eftir að vera búin að taka meðal í tvo daga.

fimmtudagur, mars 15, 2007

Guð í gamla daga

Mamma var að lesa fyrir mig Ævintýrið um Augastein þar sem er talað um hvernig fólk var fátækt í gamla daga og átti lítinn mat og það var svo dimmt því það var ekkert rafmagn. Þetta fannst mér merkilegt. Ég held að Guð í gamla daga hafi verið fastur á krossinum, eða kannski var hann svona gamall að hann gat ekki skapað ljós og rafmagn og mat handa fólkinu. Jámm, mamma hafði alla vega enga betri skýringu á reiðum höndum.

Eru að koma jól eða hvað? Hvað ætli Guð sé nú að bralla?

Já er nema von að maður spyrji, allt í einu var þykkt snjólag yfir öllu í morgun. Ég var alveg steinhissa á þessu.

Mamma er komin heim frá útlöndum, með fullt af fötum handa mér. Þar á meðal ótrúlega flott Hello Kitty föt sem mig kannski vantaði strangt til tekið ekki en voru bara svo krúttleg að hún varð að kaupa þau. Henni finnst líka svo fyndið að þetta skuli vera komið aftur í tísku því þetta var líka í tísku þegar hún var lítil stelpa.

Pabbi var ótrúlega góður við mig á meðan mamma var í burtu, gaf mér Ronju disk, Kinder egg og ýmislegt fleira. Við fórum líka í fjöruna með Gabríel, það var alveg ískalt en samt mjög gaman, við fundum skeljar og gamlan vinnuhjálm og ýmislegt merkilegt.

föstudagur, mars 09, 2007

mánudagur, febrúar 26, 2007

Framtíðarplön

Þegar ég eignast stelpu þá ætla ég að gefa henni nafnið Elísabet Margrét, og þegar ég eignast strák þá á hann að heita Andrés Ari.

Annars er það helst að frétta að ég er loksins orðin hitalaus, ég var heima alla síðustu viku með hósta og kommur en á morgun fæ ég loksins að fara aftur í leikskólann minn. Sem er eins gott því ég er orðin hundleið á húsinu okkar og mömmu minni. Ég fór til ömmu í pössun í smástund í dag og ég öskraði bara á mömmu þegar hún kom að sækja mig, ég vildi ekkert fara með henni. Seinni partinn í dag fékk ég svo smá heimsókn. Það var lítil stúlka sem býr fyrir aftan okkur og síðast þegar ég hitti hana var hún bara skríðandi um, en nú er hún orðin svo stór að hún kom trítlandi og spurði hvort hún mætti koma inn að leika. Ég hélt það nú og vildi helst ekkert að hún færi aftur, ætlaði bara að bjóða henni í mat og svona. En hún kemur örugglega aftur í heimsókn seinna og við eigum líka örugglega eftir að leika saman úti í garði þegar fer að vora.

Já og ekki má nú gleyma því að við systkinin fórum í pössun á laugardagskvöldið til Önnu-Lindar. Við vorum alveg til fyrirmyndar og okkur fannst rosa gaman að vera þar og leika við frændur mína þá Berg Mána og Teit. Mamma og pabbi komu svo um nóttina að sækja okkur, ég vaknaði víst alveg á leiðinni og lét lesa fyrir mig þegar við komum heim og eitthvað svona, en það eina sem ég mundi daginn eftir var þegar mamma hélt á mér og ég rann alltaf niður því hún var í svo sleipum kjól og ég í sleipum náttfötum.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Óskemmtilegur öskudagur

Það var eins gott að ég fór i búningaafmæli hjá Silju frænku minni í síðustu viku, ég er nefnilega lasin í dag og missti af öskuballinu í leikskólanum. Ég er samt ekkert mikið lasin, bara slöpp og með nokkrar kommur. Guðmundur Steinn er líka slappur, kvefaður og með hósta. Við erum orðin ósköp leið á þessu ástandi sem er búið að vera meira og minna frá áramótum, og erum farin að hlakka mikið til vorsins.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Rétt svar

Sunna frænka er snillingur, svarið er hraðahindrun. Hún fær kaffi og kökur þegar hún kemur fljúgandi á flugmiðanum sem hún vann í happdrætti um helgina! Og Lilja Eygerður fær gott klapp fyrir góða tillögu :-)

laugardagur, febrúar 10, 2007

Gáta

Ég er mjög upptekin af umferðarskiltum þessa dagana og í bílnum er ég alltaf að spyrja mömmu hvað hin og þessi umferðarmerki þýða. Þá reyni ég að lýsa skiltunum fyrir henni en stundum fattar hún ekki hvaða skilti ég er að tala um. Og hér er þannig umferðarmerkis-gáta handa ykkur. Hvaða merki er það sem er þríhyrningur með gulu og mynd af hatti, ekki snjókallahatti heldur venjulegum hatti eins og menn eru með. Þeir sem geta án þess að kíkja í símaskrána fá klapp, og kaffi og meððí ef þeir koma í heimsókn :-)

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Stöðutékk

  • Mamma - orðin frísk
  • Ég - aftur orðin lasin, með nokkrar kommur, hósta og leiða
  • Pabbi - í útlöndum
  • Sigurður Pétur - hjá mömmu sinni, ég fékk að hringja í hann alveg sjálf í gær
  • Guðmundur Steinn - talar fyrir sig sjálfur
  • Gabríel - hundleiður (bókstaflega) á að komast ekki út að labba, en Þórður hefur sem betur verið svo góður að viðra hann fyrir okkur

Skemmtilegir dagar

Það er búið að vera svo gaman hjá mér síðustu daga. Í fyrradag fékk ég að fara til læknis og í myndatöku. Það var tekin mynd af lungunum mínum, en ég gat ekki fengið að sjá myndina, hún er bara inni í einhverri tölvu. Það voru sem betur fer engar bakteríur á myndinni svo ég fæ bara púst en ekki meðal. Og í gær fékk ég að fara til tannlæknis, það er alltaf mjög spennandi. En það var samt ekki það skemmtilegasta, þegar mamma spurði mig í gærkvöldi hvað hefði verið skemmtilegast um daginn þá var það þegar amma Inga Rósa kom að passa mig á meðan mamma fór í búðina. Hún var að gera svona "hver á þessa tásu", það finnst mér alltaf svo gaman.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Aumingja mamma mín

Þegar við mamma komum heim eftir fimleikatímann minn í gær þá lagðist mamma bara beint upp í rúm. Ég spurði hvað hún væri að gera og hún sagðist vera veik. Ég horfði á hana í smástund og spurði svo, máttu ekki fara út? Nei, sagði hún. Þá var það útrætt, hún var greinilega mjög veik. Svo ég fór og föndraði handa henni umslag sem á stóð, pakki handa mömmu. Inni í því var svo miði sem á stóð, elsku besta mamma, húsið okkar er svo fallegt. Ég veit ekki hvaðan mér kom í hug að segja þetta um húsið, en mamma varð alla vega mjög glöð að fá svona fallegan pakka frá mér.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Kominn febrúar!

Það er meira hvað þessi mömmukona þykist hafa mikið að gera, má ekkert vera að því að skrifa fyrir mann. Ég verð bara að fara að gera þetta sjálf, ég er sko orðin mjög flink að skrifa. Amma og afi pössuðu okkur Guðmund Stein um daginn, þá skrifaði ég bréf til þeirra sem var svona: ama og avi ðö eru sghendileh og fn (amma og afi þau eru skemmtileg og fín). Ég er líka farin að skrifa ýmsa minnismiða, eins og hvað ég ætla að gefa vinkonum mínum í afmælisgjöf og svona. Ég skrifaði líka innkaupalista fyrir mömmu um daginn, svo hún myndi ekki gleyma að kaupa það sem mér fannst vanta. Það var: gúrka, flabröð, apelsínur, sítrónur, epli.

Ég er auðvitað orðin eldhress og laus við lungnabólguna. Það var þarsíðasta sunnudag sem ég var orðin frísk, þá fékk ég að fara í afmæli hjá vinkonu minni og svo aftur til skemmtilegu vinkonu hennar mömmu. Hún sagði að ég gæti örugglega orðið fimleikastjarna, ég var svo flink að fara í handahlaup og alls konar. Ég er líka hætt að vera í krílahóp og komin í G1. Mér finnst það mjög merkilegt, það er líka dálítið erfiðara en að vera í krílahóp. Mamma var að útskýra fyrir mér hvernig það yrði alltaf pínu erfiðara og erfiðara þegar maður færi í nýjan hóp í fimleikunum. Já, sagði ég, eins og í Mario! Það er sko uppáhaldstölvuleikurinn minn og þegar maður klárar borð þá kemst maður lengra og lengra og það verður erfiðara og erfiðara. Svo ég átti nú ekki erfitt með að skilja þetta.

Um síðustu helgi átti svo stóri bróðirinn minn afmæli, orðinn 10 ára! Strákarnir í bekknum hans komu hingað í afmæli og horfðu á mynd. Eftir myndina fóru sumir strákarnir að leika í mínu herbergi, það fannst mér heldur en ekki flott! Þeim fannst ótrúlega flott að ég skyldi eiga Action kall. Það er sko eldgamli Action kallinn hans Sigurðar Péturs :-) Grey Sigurður Pétur varð síðan lasinn á sunnudaginn og búinn að vera veikur alla vikuna. En gott að hann var hress í veislunni sinni og vonandi verður hann orðinn frískur fyrir fjölskylduveisluna á laugardaginn.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Skoppandi lungnabólgusjúklingur

Ég fékk að fylgja litla bróður til læknis í dag. Og af því að ég er búin að vera með leiðinda hósta í viku, og af því að mér finnst svo gaman hjá lækni, þá fékk ég líka smá skoðun. Ég var nú samt ekki mjög lasleg, dansandi um alla biðstofuna á meðan við biðum eftir að fara inn. En það kom í ljós að ég er komin með sýkingu í lungun og fæ meðal. Ég var líka búin að segja mömmu að ég þyrfti að fara til læknis! Ég segi það reyndar dálítið oft, mér finnst frábært fjör að fara til læknis. Og ég fæ semsagt að vera heima einhverja daga í viðbót, ég er búin að vera heima núna í viku að frátöldum einum degi þegar við mamma héldum að ég væri orðin frísk. Við erum búnar að gera ýmislegt skemmtilegt, í dag til dæmis bjuggum við til handa mér hálsfesti og armband úr seríosi og perlum. Svo bjuggum við líka til kórónu því ég vildi vera prinsessa. Ég ákvað síðan að skipta um nafn og tók mér nafnið Perla Lind Prinsessa, sem ég skrifaði á kórónuna.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Lasin í snjónum

Haldið þið að ég hafi ekki bara farið eins og fín frú í heimsókn út í bæ til vinkonu mömmu. Það var afskaplega skemmtilegt, þar var ótrúlega flott dót sem stóra stelpan hennar á, og svo fékk ég súkkulaðisnúð og kókómjólk. Ekki amalegt það!

Ég var því miður lasin heima alla helgina og Sigurður Pétur líka. Mamma bannaði mér líka að fara í leikskólann í gær, mér fannst það ömurlegt af henni >:-( Ég ætlaði ekkert að velja útisvæði og þá fannst mér að ég gæti bara alveg farið í leikskólann. En svo var ég orðin hitalaus í gær og mátti loksins fara í leikskólann aftur í dag. Sigurður Pétur mátti heldur ekki fara í skólann í gær, en hann var nú ekki eins mikið að skammast yfir því eins og ég. En okkur þótti báðum frekar leiðinlegt að geta ekki farið út að leika í öllum snjónum. Gabríel er hins vegar búinn að vera mjög duglegur að hoppa og skoppa og leika sér í snjónum, honum finnst það alveg frábærlega skemmtilegt. Pabbi fór með hann í labbitúr í fjöruna og hann stökk út á krapann í fjörunni þar sem hann sökk, svo pabbi þurfti að stökkva út í og bjarga honum.

mánudagur, janúar 01, 2007

Ég vissi ekki að það myndi verða svona brjálað hjá okkur!

Ég sá í fyrsta skipti áramótaflugeldana í gærkvöldi og vá hvað það var flott og brjálað! Ég var í veislu hjá ömmu og afa í Hjallabrekku með fullt af skemmtilegu fólki og við systkinin vorum sko í fullu fjöri! Það er að segja við Sigurður Pétur, Guðmundur Steinn var nú frekar rólegur og svaf alveg af sér áramótin. Ég sofnaði að vísu yfir áramótaskaupinu, en sem betur fer vaknaði ég aftur fyrir miðnættið, ég hefði örugglega orðið hundfúl ef ég hefði misst af aðal sprengjufjörinu. En ég var nú orðin ansi þreytt, ég var komin í náttfötin og afi hélt á mér út í bíl og pakkaði mér inn í teppi, það var nú notalegt.

Við óskum ykkur öllum gleðilegs árs og takk fyrir allt gamalt og gott.

sunnudagur, desember 31, 2006

Árið

Mamma mín vill útnefna sjálfa sig mann ársins fyrir að eignast svona ótrúlega flottan litla bróður handa mér. Hún er nefnilega mjög montin af því hvað hún var flink í að koma honum í heiminn, sérstaklega af því það gekk nú ekkert svo vel með mig á sínum tíma. Og hann er náttúrulega flottasti litli bróðir í heimi. Pabbi kemur síðan sterkur inn í annað sæti fyrir að vera svo skemmtilegur og góður og fara með okkur í ævintýraferðir í fjörunni. Og líka fyrir að smíða frábært baðherbergi handa okkur og íbúð á neðri hæðinni.

Í gærkvöldi var ég að dunda mér við að skrifa á meðan mamma og pabbi spiluðu við Sigurð Pétur. Ég skrifaði:
Þíaþ jólin eru indiseg jólin eu bstu jól í hmi (ég ruglast stundum pínu hvert ég er komin og gleymi stöku stöfum)
Svo skrifaði ég líka allt sem var í Ronju, ég fékk nefnilega að fara aftur að sjá Ronju í leikhúsinu í gær. Og það var:
Rasálvar, hultufólk, Ronja go Birkir, grátverkar (grádvergar), Matías, Sgalapétur (Skalla-Pétur), ridar (riddarar), Lovía (Lovísa), Borki, skóarorir (skógarnornir), Valdís og síðast en ekki síst, Hevedsskáin. Það er dálítið erfitt að skrifa Helvítisgjáin :-)

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin

Þá eru jólin loksins komin! Þessu lýsti ég nokkrum sinnum yfir á meðan við vorum að opna pakkana. Aðfangadagur var nú dálítið strembinn og mikið að gerast, afmælið hennar mömmu, möndlugrautur, jólabað, biðin eftir hátíðinni, spenningurinn yfir pökkunum og svo spennan yfir öllum fallegu og skemmtilegu gjöfunum. En þetta gekk nú stóráfallalaust og ég var afskaplega ánægð og glöð í lok dagsins, eins og við öll.

Á jóladag fórum við í jólaveislu til Önnu-Lindar frænku og hittum þar öll stóru frændsystkinin mín. Það var auðvitað brjálað fjör og við skemmtum okkur öll mjög vel. Guðmundur Steinn var ekki síst ánægður, hann fékk frostpinna í plasti að naga og fannst það æði, hann klæjar greinilega mikið í gómana litla greyið.

Á annan í jólum elduðu svo mamma og pabbi kalkún, það er hvorki meira né minna en níundi jólakalkúnninn sem þau elda saman! Þeim finnst það alveg ótrúlegt. Og þá kom Júlía sætaskott frænka mín og auðvitað afi og amma, Þórður og Sunna og Maggi. Mér fannst rosa gaman, sérstaklega þegar við horfðum á vídeómyndir af mér. Ég nennti sko ekkert að horfa á myndir af Guðmundi Steini, ég vildi bara hafa þær af mér.

Í gær fórum við svo á stóra fína jólaballið, ég var ekkert hrædd við jólasveinana og leiddi meira að segja einn þeirra! Og á morgun fer ég á Ronju ræningjadóttur og svo kemur gamlársdagur. Meira hvað það er margt skemmtilegt að gerast núna!

föstudagur, desember 22, 2006

Jibbí

Pabbi er kominn heim og mikið er ég glöð. Ég hélt næstum því að hann kæmist ekki heim fyrir jólin.